146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[17:27]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir framsögu hæstv. fjármálaráðherra og tek undir að þetta lítur út fyrir að vera afar gott frumvarp sem mun bæta eftirlit með fjármálamörkuðum og ekki veitir af.

Mig langar samt til að forvitnast og kannski er þetta í rauninni ákveðin heimspekileg spurning en samt engu að síður mikilvæg fyrir það hvernig við högum stjórnkerfi landsins.

Með þessu er í rauninni verið að búa til ákveðna tvöföldun á eftirlitskerfinu. EBA, ESMA og EIOPA tilheyra svokallaðri ESB-stoð en svo er Eftirlitsstofnun EFTA sem sinnir auðvitað ákveðnu hlutverki líka. Þarna er ákveðin samsvörun og jafnvel mætti að segja tvítekning.

Nú er ég afar hrifinn af EFTA-samningnum og ýmsu sem er þar inni. En mig langar samt svolítið að forvitnast og spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi áhyggjur af þessari tvítekningu. Nú er talað um í frumvarpinu að þetta sé kostnaður í kringum 31 milljón á ári, ef ég mislas ekki, sem er mjög óveruleg fjárhæð fyrir ríkissjóð. En engu að síður erum við að sjálfsögðu að greiða líka til þess að fjármagna Eftirlitsstofnun EFTA og mig langar að spyrja hvort það sé ekki eitthvert svigrúm til þess að nýta samspilið betur með þannig hætti að það sé minni tvítekning og kostnaður minnki og það verði jafnvel meiri skilvirkni í eftirlitskerfum sem við erum aðilar að.