146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:09]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Já, ég get ekki annað en tekið undir orð hv. þingmanna sem hér hafa talað. Það er með öllu ólíðandi og óþolandi að hæstv. samgönguráðherra geti tekið ákvarðanir sem þessar einn síns liðs án samráðs við hv. Alþingi. Með ákvörðun sinni hefur hann sett fjölda einstaklinga og atvinnurekstur, m.a. á sunnanverðum Vestfjörðum, í uppnám og vegna þessarar ákvörðunar og þessa fréttaflutnings og orða hæstv. samgönguráðherra þá kraumar mikil reiði, skiljanleg reiði, í samfélaginu, m.a. á sunnanverðum Vestfjörðum. Ég hvet hæstv. samgönguráðherra að koma til hv. Alþingis og upplýsa okkur hv. þingmenn um þetta og þann niðurskurð sem orðið hefur og að koma með það inn í þingið svo við getum tekið efnislega umfjöllun um það og unnið samkvæmt þeirri samgönguáætlun sem hér er í gildi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)