146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:10]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Maður heyrir oft að Alþingi ályktar, Alþingi samþykkir. Það þýðir í raun og veru að meiri hlutinn ályktar og meiri hlutinn samþykkir, eða réttara sagt ráðherrann ræður. Það virðist vera þannig og þetta er auðvitað ekkert í fyrsta skipti sem svo er. Það muna margir eftir því hvað fyrrverandi utanríkisráðherra gerði með aðildarviðræður við Evrópusambandið, en þær voru ekki teknar hér inn í þingið.

Mig langar mikið að heyra hvað hv. þingmönnum meiri hlutans finnst um þetta gerræði ráðherrans. Það væri mjög gagnlegt að heyra hvað öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar finnst um þessi vinnubrögð, hvort þetta sé fúsk eða hvort þetta séu fagleg og vönduð vinnubrögð.