146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég geri þá kröfu að við fáum samgönguáætlun til umræðu. Þetta eru auðvitað ekki boðleg vinnubrögð. Fjárlaganefnd fékk þann beiska bikar að reyna að forgangsraða og koma saman fjárlögum og reyna að forgangsraða því litla fjármagni sem áætlað var í samgöngur og náði fram samstöðu í erfiðum aðstæðum. Síðan kemur ný ríkisstjórn sem ætlar ekkert að gera með það. Ekki neitt. Það er auðvitað ekki sæmandi ríkisstjórn að vinna svona. Öll ríkisstjórnin ber ábyrgð á þessum vinnubrögðum. Við verðum að fá meira fjármagn inn í þennan lið, samgöngur í landinu.

Það var talað um að ný ríkisstjórn myndi taka upp fjárlögin. Hvar er sú vinna núna? Ætla menn ekkert að gera það? Var þetta ekki, miðað við aðstæður, ákveðin bráðabirgðaredding fyrir jólin varðandi fjárlögin? En núna ætlar ríkisstjórnin ekkert að gera. (Forseti hringir.) Bara að hræra í pottunum hver í sínu ráðuneyti og bjóða landsmönnum upp á þetta. (Forseti hringir.) Ég held að við förum bara öll að hlekkja okkur við einhverja vegi til að sýna alvöruna í þessu máli. (Gripið fram í.) Það er víða um land þannig ástand.