146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:24]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú að vera með aðeins meiri æsing en hv. þingmaður. Þótt ég gleðjist yfir því að búið sé að boða til fundar í umhverfis- og samgöngunefnd með hæstv. ráðherra tel ég að það sé ekki nóg. Ég held að það væri alla vega hægt að hafa þennan fund opinn því að þetta er fundur sem skiptir alla landsmenn máli. Ég mun því hvetja til þess að hv. umhverfis- og samgöngunefnd haldi opinn nefndarfund með hæstv. ráðherra varðandi þetta mál því að það er mjög alvarlegt. Hvaða fordæmi gefur það öðrum ráðherrum að ráðherra geti bara virt að vettugi vald þingsins, þau mörk sem þingið hefur sett framkvæmdarvaldinu? Ef okkur þykir það bara í lagi höfum við lítið að gera hérna. En við getum alla vega reynt að hugsa í lausnum og ég held að ein lausnin sé opinn (Forseti hringir.) nefndarfundur með hæstv. samgönguráðherra.