146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:35]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Ef ég hef skilið rétt var það Frakkinn Charles de Secondat de Montesquieu sem var fyrstur til þess að benda á nauðsyn þess að aðskilja löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Hann hafði fullkomlega rétt fyrir sér þar sem hann færði fyrir þessu ítarleg og góð rök. Nú sjáum við dæmi þar sem þetta virkar ekki sem skyldi.

Svo er líka annað í þessu og hefur kannski ekki verið nefnt hér, það er þjóðarvilji. Á haustdögum var rætt um samgönguáætlun og hún samþykkt á endanum í góðri sátt. Enda voru allir, þingmenn jafnt sem almenningur, sammála um nauðsyn þess að nú þyrfti að veita umtalsvert miklu meira fjármagn til innviðauppbyggingar, ekki hvað síst varðandi samgöngukerfi. Þannig að þetta (Forseti hringir.) er eins og blaut tuska núna. Félagar okkar í Berufirði stóðu sig ansi vel, verð ég að segja.