146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er auðvitað mikilvægt að samgönguráðherra taki sönsum. Við þurfum að standa hér vörð um heiður Alþingis og tryggja að farið sé að lögum. En stóra verkefnið er að opna augu manna fyrir því að sveltistefnunni í vegamálum verður að linna. Það er ekki hægt að búa við þetta ástand lengur. Það verður að breyta hér verulega um kúrs. Það þarf að auka fjárveitingar til samgöngumála, vegamála ekki síst. Til þess þarf fé. Það verður að afla þess fjár einhvers staðar.

Og þá vill svo vel til að lög um vörugjöld af ökutækjum og eldsneyti og lög um olíugjald og kílómetragjald eru í fullu gildi og þau merkja vegamálum allar tekjur sem koma af sérstöku vörugjaldi á bensín, af olíugjaldi og af kílómetragjaldi, mínus 0,5% sem ríkið fær í innheimtuþóknun. Væri þá ekki ráð að sameinast nú um það hér á Alþingi að fullnýta þessa tekjustofna áður en lengra er haldið? Það myndi á þeim (Forseti hringir.) átta mánuðum ársins, sem hægt væri að innheimta hækkuð gjöld, draga eitthvað upp í vöntunina sem hér er undir.