146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgönguáætlun.

[15:40]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég held áfram þar sem frá var horfið. Mig langar nefnilega að ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra og formann Bjartrar framtíðar um ástæður þess að ríkisstjórnin ætlar að hafa samgönguáætlun að engu, samgönguáætlun sem hann samþykkti rétt fyrir kosningar á sama tíma og hann lofaði betri vinnubrögðum, nýrri pólitík og minna fúski. Samþykkt samgönguáætlunar var í anda nýrra stjórnmála. Það náðist um hana samstaða þvert á flokka. Nú er hoppað frá borði og menn hyggjast ekki uppfylla hana.

Þó lá fyrir, líka fyrir kosningar, hvað framkvæmdirnar myndu kosta. Það gengur ekki að lausnin sé eingöngu sú sem hæstv. samgönguráðherra hefur boðað, að veggjöld í kringum höfuðborgarsvæðið, sem voru ekki rædd fyrir kosningar, eigi að standa undir þessu, annars verði ekkert gert.

Nú virðist hæstv. samgöngumálaráðherra ætla að forgangsraða verkefnum eftir eigin geðþótta. Því spyr ég: Flokkast þetta undir fúsk, herra heilbrigðisráðherra? Og ég spyr hæstv. ráðherra líka: Hvernig eigum við þá að standa undir samgönguáætlun sem er í gildi og hann samþykkti? Mun hann beita sér fyrir því að gerð verði ríkisfjármálaáætlun þar sem fjármagn verði í takti við samþykkta samgönguáætlun? Hvernig ætlar hann yfir höfuð að sækja fjármagn í þessi verkefni? Hvaða leiðir telur, með öðrum orðum, hæstv. ráðherra unnt að nota til að standa við gefin loforð?