146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum.

[15:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og óska honum jafnframt til hamingju með jómfrúrræðuna, enda var hún ekkert smá. Þetta er mjög mikilvægt málefni sem stendur mér mjög nærri hjarta. Geðheilbrigðismálin eru, ég segi nú ekki í lamasessi, en þau þurfa virkilega mikla innspýtingu. Ég hef horft mjög til geðheilbrigðisstefnu sem samþykkt var á þingi á vordögum á síðasta ári. Þar í er stefna um aðgerðir sem við erum að undirbúa í ráðuneytinu en því miður er þeirri vinnu ekki lokið. Það kemur nú að hluta til vegna kosninga, stjórnarkreppu og vegna þess að ríkisstjórnin tók seint við, en ég vonast til þess að geta komið með þá vinnu til þingsins sem allra fyrst.

Ég er sammála hv. þingmanni um að fjárfestingar í geðheilbrigðismálum, aukin þjónusta, ekki bara á Landspítalanum og stóru sjúkrahúsunum heldur líka í gegnum heilsugæsluna, í gegnum nærþjónustuna og beint í gegnum skólakerfið — við höfum áður í þessum sal rætt um sálfræðiþjónustu inn í framhaldsskólana sem ég held að sé mjög brýnt verkefni og megi vinna í samvinnu við heilsugæsluna. Það eru mikilvæg verkefni og mikilvæg fjárfesting fyrir samfélagið allt.

Eitt af því sem við þurfum að þróa núna í undirbúningi fjármálaáætlunar til næstu fimm ára er hvernig við getum lyft forvörnum og lýðheilsuhluta fjármagnsins, skulum við segja, til þess að auka á endanum (Forseti hringir.) lífsgæði og búa líka til beinharðan sparnað á hinum endanum.