146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

einkarekstur í heilbrigðisþjónustu.

[15:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég fagna nú frekar þessu sem hæstv. ráðherra segir ef ráða má það af máli hans að hann telji að ekki sé ástæða til að leita út fyrir opinberu sjúkrahúsin sem eru að vinna með sérstökum fjárveitingum niður biðlistana, þ.e. Landspítali, Sjúkrahúsið á Akureyri og Akranes, og það horfir ágætlega í þeim efnum. Skilgreiningin er ekki aðalatriði. Stóra álitamálið hér væri auðvitað það, og stóru landamærin sem stigið væri yfir, að gerður yrði samningur við einkarekið sjúkrahús, sem er rekið í hagnaðarskyni af einkaaðilum, sem væri komið inn í sérhæfðari sjúkrahúsþjónustu og með legudeild og guð má vita hvað. Ég held að þá verði ekki aftur snúið. Þess vegna má það ekki gerast að menn, í skjóli af biðlistunum og tímabundnum aðstæðum, reyni að fella þessa víglínu og hleypa af stað fyrsta einkarekna sjúkrahúsinu á Íslandi.

Hæstv. ráðherra ber við fjárhagsvandræðum þegar hann talar um geðverndarmál og að víðar mætti bera niður í heilbrigðiskerfinu. Er þá eitthvert vit í því að fara að smyrja þessu fjármagni þynnra (Forseti hringir.) og ganga gegn afstöðu landlæknisembættisins, Landspítalans, og slíkra aðila í máli af þessu tagi? Ég skora á hæstv. ráðherra að standa í lappirnar.