146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

fsp. 5.

[16:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er nóg að gera hjá hæstv. heilbrigðisráðherra. Fjárlaganefnd fékk kynningu vegna eftirlits með framkvæmd fjárlaga fyrr í dag. Þar var farið yfir áhættuliði vegna útgjalda umfram fjárheimildir. Einn af þeim liðum sem eru metnir sem svo að fari umfram fjárheimildir er sérfræðiþjónusta og hjúkrun upp á 2 milljarða fyrir árið 2017. Það er rúm 13% hækkun fyrir þann lið.

Það á eftir að búa til stefnu fyrir málefnasviðið. Gert er ráð fyrir að stefnumótunarvinna hefjist eigi síðar en eftir að fjármálaáætlun hefur verið samþykkt á Alþingi. Drög að stefnu verða síðan kynnt í ágúst.

Hver ráðherra ber ábyrgð á og hefur virkt eftirlit með framkvæmd fjárlaga á sínu málefnasviði. Hver ráðherra ber ábyrgð á að ráðstöfun fjárheimilda sé innan þess ramma sem Alþingi ákveður. Ef markverð frávik eru milli útgjalda og fjárheimilda eða ef ástæða er til að ætla að svo verði, sem í þessu tilviki er verið að vekja athygli á, skal ráðherra án tafar gera fjármála- og efnahagsráðherra grein fyrir ástæðum þeim og þeim ráðstöfunum sem hann hefur eða hyggst grípa til til að koma í veg fyrir að frávik verði milli útgjalda og fjárheimilda.

Áhættumatinu var skilað 10. febrúar til ráðuneytis. Fjárlaganefnd var síðan upplýst um málið í dag, 6. mars. Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvenær gerði ráðherra grein fyrir þeim ráðstöfunum sem hann hyggst grípa til til að koma í veg fyrir að farið verði umfram fjárheimildir? Og án þess að hafa stefnu um málefnasviðið, hvernig getur ráðherra rökstutt að aðgerðir fylgi stefnu?