146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

valfrjáls bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (OPCAT).

169. mál
[16:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Fullgilding OPCAT-bókunar sem er viðauki við samning Sameinuðu þjóðanna um pyndingar var samþykkt á Alþingi 19. desember 2015. Í bókuninni er kveðið á um eftirlit sjálfstæðra aðila með stofnunum sem vista frelsissvipta einstaklinga til að koma í veg fyrir illa meðferð og pyndingar.

OPCAT-eftirlitið er annars vegar framkvæmt af innlendri eftirlitsnefnd sem setja þarf sérstaklega á fót hér á landi og hins vegar starfar alþjóðleg eftirlitsnefnd á grundvelli samningsins sem heimsækir aðildarríkin, skoðar aðstæður á stofnunum og er innlendu eftirlitsnefndinni einnig til aðstoðar. Þær stofnanir sem eftirlitið lýtur að eru fangelsi en einnig stofnanir á borð við geðsjúkrahús og heilbrigðisstofnanir sem vista frelsissvipt fólk. Innlenda eftirlitsnefndin mun fara í reglulegar og jafnvel óvæntar könnunarferðir á stofnanir og í fangelsi.

Tryggja þarf að nefndin hafi fullkominn aðgang að húsakynnum, starfsfólki og vistmönnum sem hún getur rætt við einslega ef henni sýnist svo. Tryggja þarf að starf nefndanna verði þverfaglegt og að að því komi til að mynda lögfræðingur, læknir og sálfræðingur. Auk þess ber að tryggja nefndinni sjálfri og viðmælendum hennar viðhlítandi vernd gegn mögulegum refsi- og hefndaraðgerðum. Þá þarf réttur nefndarinnar til allra upplýsinga og gagna að vera ótvíræður. Brýnt er að nefndin hafi nægt fjármagn til að geta sinnt skuldbindingum sínum.

Í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar um fullgildingu bókunarinnar kemur fram að ríkið hafi eitt ár frá fullgildingu hennar til að koma innlenda eftirlitinu á laggirnar en geti fengið frest í þrjú ár geri ríki um það sérstaka yfirlýsingu þegar bókunin er fullgilt. Þrátt fyrir að rúmt ár sé frá samþykki Alþingis fyrir fullgildingu hefur bókunin enn ekki verið formlega fullgilt af Íslands hálfu.

Ég óska því eftir upplýsingum um hvernig unnið er að innleiðingu OPCAT-bókunarinnar og hvenær er áætlað að eftirlit samkvæmt henni geti hafist.

Í OPCAT-bókuninni kemur einnig fram að alþjóðlegu nefndinni sé falið að vera ríkjum til aðstoðar og ráðgjafar þegar innlenda eftirlitið er innleitt. Á alþjóðavettvangi starfa frjáls félagasamtök gegn pyndingum sem búa yfir mikilli þekkingu um eftirlitsstarfið. APT-samtökin voru sérstaklega stofnuð til að þrýsta á um gerð alþjóðasamnings um eftirlit með stofnunum sem vista frelsissvipta einstaklinga. Þetta markmið samtakanna varð að veruleika árið 2002 þegar OPCAT-bókunin var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Verkefni APT-samtakanna í dag eru margvísleg en m.a. veita samtökin aðstoð og ráðgjöf til ríkja á innleiðingartímabilinu sem og aðstoða þau innlendu eftirlitsnefndina.

Getur hæstv. dómsmálaráðherra upplýst hvort eitthvert formlegt samráð hafi átt sér stað við ráðgefandi aðila hjá Sameinuðu þjóðunum eða alþjóðleg félagasamtök eins og APT-samtökin við undirbúning innleiðingarinnar? Hvernig er samráði hlutaðeigandi hagsmunaaðila (Forseti hringir.) háttað við innleiðingu innlenda eftirlitsins?