146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

valfrjáls bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (OPCAT).

169. mál
[16:21]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er mikilvæg spurning sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir bar upp. Ég held að við hljótum að vera öll sammála um að við viljum að vel sé fylgst með því og að það leiki enginn vafi á því að á Íslandi séu ekki stundaðar pyndingar af hálfu stofnana. Hæstv. ráðherra kom inn á það í svari sínu og ef ég skildi hana rétt að hreinlega vanti fjármagn til þess að hægt sé að fylgja eftir samþykkt Alþingis. Kunnuglegt stef, verður maður að segja, að því er virðist.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Er það þá hreinlega vegna þess að ekki hefur verið tryggt fjármagn á fjárlögum sem það hefur dregist að þessu eftirliti sé komið á þótt það hafi legið ljóst fyrir að Ísland hefði ár til þess að undirbúa sig og hafi ekki sótt um þennan þriggja ára frest?