146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

biðlistar eftir greiningu.

157. mál
[16:45]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þetta er mjög áhugavert mál. Ég vil í svari mínu byrja á að vísa til nýlegrar skýrslu um úttekt á menntun fyrir alla á Íslandi, menntun án aðgreiningar, þar sem kemur fram að eitt af vandamálum okkar er að við greinum of mikið, ofgreinum í raun og veru, sérstaklega börn á grunnskólastiginu, og kemur kannski inn á það sem hv. þingmaður nefndi hér, að menntakerfinu er ekki treyst fyrir fyrsta þrepinu í þessu, einföldustu greiningunum, þegar börn þurfa á minni háttar aðstoð að halda heldur er aðstoðin bundin við að greining hafi átt sér stað og sveitarfélögin veita ekki fjármagn til þess öðruvísi en að formleg greining liggi fyrir. Þetta er kerfisvandi sem býr til alveg gríðarlegan biðlista inn í greiningu barna sem þurfa fyrst og fremst minni háttar aðstoð til að komast áfram.

Svarið við spurningunni um hvort við hyggjumst beita okkur fyrir átaki í því er: Já, við hyggjumst gera það. Ég held að það sé nauðsynlegt. Þetta er algjörlega óásættanlegur biðtími sem við horfum upp á. Hér bíða hundruð barna eftir greiningu á hverjum tíma en ég held að mjög stór hluti þess vanda liggi í kerfisvandanum, þ.e. að í samstarfi við sveitarfélögin breytum við þessari nálgun þannig að menntakerfinu sjálfu verði treyst betur til að sinna fyrsta stigs greiningu og að við einbeitum okkur þegar kemur að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Þroska- og hegðunarstöð að þeim börnum sem þurfa á víðtækari úrræðum að halda og getum þá sinnt þeim betur. Fjárveiting sveitarfélaganna ætti ekki að vera skilyrt formlegri greiningu heldur lagður metnaður í að grípa strax inn í, veita börnunum strax þá aðstoð sem þau þurfa á að halda. Hvort sem það er síðan mat að á endanum þurfi barnið á formlegri greiningu að halda eða frekari úrræðum á það ekki að tefja fyrstu viðbrögð menntakerfisins.

Á þetta hefur margoft verið bent og þetta er meðal þess sem er verið að skoða í samstarfi við sveitarfélögin, hvernig við getum breytt því.

Seinni spurningin snýr að því hvort ráðherra hyggist bæta við fjármagni. Á síðasta ári, að ég hygg, var veitt viðbótarfjármagn til Þroska- og hegðunarstöðvar til að taka á miklum biðlistavanda þar. Það átak tókst með ágætum. Nú er beðið endanlegrar greiningar á því en það þýddi að þeim börnum sem nutu þjónustu stöðvarinnar fjölgaði um nærri 300 á milli ára, fóru úr um 350 í 650, að ég hygg, og tókst að stytta biðlista um 100 einstaklinga þá á einu ári sem sýnir að það er hægt að ná góðum árangri í þessum efnum. Við erum að meta þetta samspil fjárveitinga og áherslu á styttingu biðlista en ekki síður samspil við sveitarfélögin um að taka á þessum kerfislæga vanda sem hjálpar okkur til að taka á þessu og veita þá þjónustuna miklu fyrr.

Ég þakka fyrirspurnina enn og aftur.