146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

áfengisfrumvarp.

160. mál
[17:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Fyrir stuttu ræddum við hv. þingmenn eitt af forgangsmálum nokkurra hv. þingmanna, svokallað áfengisfrumvarp. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að skiptar skoðanir eru innan hv. Alþingis um ágæti þessa frumvarps en einnig eru skiptar skoðanir meðal fólks í þjóðfélaginu um mikilvægi þess. Í nýlegum skoðanakönnunum er meiri hluti landsmanna á móti samþykkt frumvarpsins.

Einnig er það svo þegar farið er yfir umsagnir um áfengisfrumvarpið, þ.e. þegar það var í efnislegri vinnslu hér á síðasta kjörtímabili eða á síðustu kjörtímabilum, að mjög skiptar skoðanir eru meðal umsagnaraðila um málið. Ef umsagnirnar eru skoðaðar sést að fagfólk í heilbrigðis- og félagsvísindum varar allt við samþykkt frumvarpsins en margir aðilar sem tengjast verslun og þjónustu telja mikilvægt að frumvarpið verði samþykkt. Það er ekki hægt annað en að velta fyrir sér hverra hagsmuna sé verið að gæta þegar umsagnir eru á þennan veg. Ekki ætla ég að ákveða það en þessar umsagnir vekja mann til umhugsunar.

Þegar umrætt frumvarp var lagt fram að nýju í vetur ítrekaði embætti landlæknis afstöðu sína til málsins og í ályktun þess segir, með leyfi forseta:

„Aukið aðgengi að áfengi, sem leiðir til aukinnar áfengisneyslu, er líklegt til að auka tíðni einstaklingsbundinna og samfélagslegra vandamála samfara stórauknum samfélagslegum kostnaði. Samfélagsleg áhrif geta meðal annars verið aukin fjarvera vegna veikinda, þjófnaðir, öryggisleysi vegna áfengisneyslu annarra, slys og ofbeldi.“

Þar kemur fram að mikilvægt sé að skoða heildarmyndina og hafa heilbrigðissjónarmið að leiðarljósi áður en tvær af þremur virkustu forvarnaaðgerðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eru afnumdar, þ.e. takmörkun á áfengi og bann við auglýsingum.

Auk þessa hefur stjórn Krabbameinsfélags Íslands ályktað um efni frumvarpsins. Þar segir, jafnframt með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er verið að leggja til að aðgengi að áfengi verði stóraukið með tilheyrandi fjölskylduvanda, samfélagslegum kostnaði, heilsufarsvanda og álagi á heilbrigðiskerfið.“

Aukin markaðssetning leiðir til þess sama. Fjöldi fagaðila á sviði heilbrigðis- og félagsvísinda auk félagasamtaka hefur fært góð og gagnreynd rök fyrir því að slíkt væri óheillaspor gagnvart lýðheilsu.

„Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur um áratugaskeið lagt til við aðildarþjóðir sínar að unnið verði markvisst að því að draga úr heildarneyslu áfengis. Það er fjarri lagi að hægt sé að taka ákvarðanir sem varða áfengi á þeirri forsendu að þar sé um að ræða venjulega neysluvöru.“

Ég ætla því að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann taki undir m.a. ályktanir embættis landlæknis, hvort hann sé sammála þeim, og ályktanir Krabbameinsfélagsins. Hefur hann sömu áhyggjur og settar eru fram í þessum ályktunum? Auk þess spyr ég hvort hann telji að áfengisfrumvarpið samræmist heilbrigðisstefnu ríkisstjórnarinnar. (Forseti hringir.) Ég spyr hann jafnframt: Styður hæstv. heilbrigðisráðherra frumvarpið eða ekki?