146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

áfengisfrumvarp.

160. mál
[17:09]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Það er áhugavert að heyra hæstv. heilbrigðisráðherra lesa upp úr stefnu um lýðheilsu að aukið aðgengi samræmist þeirri stefnu ekki en að á sama tíma telji hann það ekki í samræmi við það að þetta mál fái þinglega meðferð að hann standi með þeirri stefnu, að ráðherra heilbrigðismála standi með landlæknisembættinu, standi með öllu heilbrigðisstarfsfólki, öllum sérfræðingum sem hafa tjáð sig um þetta mál sem snýst um að auka aðgengi að áfengi. Ég hefði reiknað með því, herra forseti, að hér hefði ráðherra heilbrigðismála staðið með sínu fólki frekar en að umm-a og a-a þetta fram af sér og svara engu öðru en að hér eigi þingleg meðferð að leiða eitthvað í ljós og þá geti birst afstaða hæstv. heilbrigðisráðherra til stærsta heilbrigðismáls sem er komið inn á þing það sem af er þingvetri, að þá fyrst geti ráðherrann stigið í pontu og lýst afstöðu sinni.

Mig langar að hnýta við, herra forseti, einni stuttri spurningu til ráðherrans. Segjum sem svo að bann við auglýsingum verði afnumið og að fyrirkomulag sölu breytist eins og lagt er til í frumvarpinu: Hvaða stjórntæki ætlar ráðherrann þá að innleiða til að ná markmiðum lýðheilsustefnunnar til að takmarka aðgengi þeirra sem ekki eiga að komast í þessa vöru eins og gert er ráð fyrir í stefnu stjórnvalda? Hvað mun það kosta? Er ráðuneytið eitthvað búið að skoða það?