146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

áfengisfrumvarp.

160. mál
[17:13]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Bjartrar framtíðar, Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar er mikið gert úr lýðheilsu og forvörnum og sagt m.a.:

„Dregið skal til framtíðar úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið allt með því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu.“

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, ég hefði óskað að fá skýrari svör við spurningu frummælanda um það hvort hæstv. heilbrigðisráðherra styðji frumvarp um sölu áfengis í smáverslun eða styðji það ekki. Um það viljum við fá að heyra skýr svör, sér í lagi varðandi allar þær umsagnir aðila sem hafa komið að máli þessa frumvarps og þær sömu sem lagðar hafa verið fram hér ítrekað. Ég óska líka eftir svörum frá hæstv. heilbrigðisráðherra um það hvort í bígerð sé að gera einhvers konar millileið um þetta frumvarp, þ.e. hvort í bígerð sé af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að gera einhvers konar millileið (Forseti hringir.) þar sem stigin verða ákveðin skref í áttina að því að selja áfengi í smáverslun til að þjónka Samtökum verslunar og þjónustu.