146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

skipulag þingstarfa, orð fjármálaráðherra í viðtali.

[13:33]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða aðeins um umhverfismál hér á þinginu. Mig langar að byrja á að hrósa forseta fyrir það að við erum farin að flokka sorp í auknum mæli á þinginu og starfsstöðvum þingsins en mig langar að velta því upp hvort þau blöð sem var útbýtt hér fyrir upphaf þessa þingfundar séu okkur þingmönnum nauðsynleg. Við erum öll með spjaldtölvu og fartölvu, þetta birtist allt á vef þingsins og þetta var lesið upp hér af forseta í upphafi þingfundar. Því langar mig að beina þeim tilmælum til forseta hvort ekki sé ástæða til að skoða hvort við ættum ekki að vera í meira mæli rafræn hér og forðast útprentun eins og hægt er.