146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

skipulag þingstarfa, orð fjármálaráðherra í viðtali.

[13:34]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég get ekki orða bundist yfir þeim orðum sem hæstv. fjármálaráðherra lét falla í útvarpsviðtali í morgun. Þar segir hæstv. ráðherra um samþykkt Alþingis á samgönguáætlun í október sl., með leyfi forseta:

„Það er byrjað á því að skapa rangar væntingar með því að samþykkja ófjármagnaða samgönguáætlun. Það má segja að það sé nánast siðlaust, finnst mér, af síðasta Alþingi.“

Ég held að ég hafi aldrei á þeim árum sem ég hef fylgst með Alþingi orðið vitni að slíkum dónaskap gagnvart þinginu. Að tala um vilja löggjafans, sem kemur skýrt fram í samþykktri samgönguáætlun, og að það sé siðlaust af löggjafanum. Þetta er þvílík lítilsvirðing og þvílíkt brengluð hugsun um þrískiptingu ríkisvaldsins. Hæstv. fjármálaráðherra ber að fara eftir samþykktum löggjafans.

Mig langar að spyrja virðulegan forseta hvað virðulegur forseti ætlar að gera í því að hæstv. fjármálaráðherra sýni þinginu þessa fádæma óvirðingu.