146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

skipulag þingstarfa, orð fjármálaráðherra í viðtali.

[13:37]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil ítreka það sem fram hefur komið í máli þingmanna Pírata um nauðsyn þess að við höfum hér agaðri og skipulagðari dagskrá þannig að við vitum hvað er fram undan og getum undirbúið okkur almennilega.

Síðan vil ég jafnframt taka undir með öðrum þingmönnum, frá Vinstri grænum, sem hafa tjáð sig um þá vanvirðu sem við þingið upplifum viðstöðulaust frá framkvæmdarvaldinu. Það var líka þannig á síðasta kjörtímabili að þingið var vanvirt en núna er það orðið þannig að það er ekki lengur hægt að sitja undir ofríki framkvæmdarvaldsins. Mér finnst mjög brýnt að forseti beiti sér fyrir því að ráðherranum verði gert ljóst hvernig þrískipting valdsins er.