146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

skipulag þingstarfa, orð fjármálaráðherra í viðtali.

[13:38]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar síendurteknu umræðu af hálfu Pírata um skort á skipulagi á störfum þingsins langar mig að segja að ég er í prinsippinu sammála þeim. Það er ekki gott að geta ekki skipulagt störf sín betur fram í tímann. En hér á hæstv. forseti litla sök að máli. Ástæða þess er fyrst og fremst eðli þingstarfa hér, sem er dálítið sérstakt samanborið við mörg önnur lönd þar sem lengd umræðu er ákveðin fyrir fram. Hér búum við við þá hefð að hver og einn þingmaður getur komið upp og reifað sjónarmið sín í máli kannski eins lengi og hann kýs og komið upp aftur og aftur. (Gripið fram í.) Eðli málsins samkvæmt er erfitt að plana fyrir fram lengd þingstarfa. (Gripið fram í.) Í þeim löndum sem það er ekki eru þau fyrirsjáanlegri. Ef við kjósum að fara þá leið að leggja meira skipulag í það hve lengi 1. og 2. umr. mega standa yfir er hægt að skipuleggja sig betur, en það er ekki bæði sleppt og haldið.