146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

skipulag þingstarfa, orð fjármálaráðherra í viðtali.

[13:39]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hafa gagnrýnt orð hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er í annað skiptið sem ráðherrar í þessari ríkisstjórn virðast ekki átta sig á því hver það er sem hefur völdin í samfélaginu þegar kemur að þessum hlutum. Það er farið að bera á einhverju smitandi keisarablæti meðal þeirra. Halda þeir virkilega að bara vegna þess að þeir sitja tímabundið í þessum embættum geti þeir tekið sér þau völd sem þeir vilja? Að kalla það siðlaust af Alþingi að bera fram ósk og kalla eftir framkvæmdum sem þjóðin er búin að vera að biðja um í mörg misseri, finnst mér skrýtið. Og mér finnst að hæstv. fjármálaráðherra verði að koma hingað og gera grein fyrir þessum orðum sínum.