146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

skipulag þingstarfa, orð fjármálaráðherra í viðtali.

[13:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar bara að árétta varðandi þær ábendingar sem við Píratar höfum komið fram með varðandi skipulag á þingstörfum að þetta er mantra sem hér hefur verið farið með frá því að ég kom á Alþingi og raunar löngu fyrir þann tíma. Kallað hefur verið eftir betra skipulagi þannig að ekki bara þingmenn geti verið betur undirbúnir heldur einnig aðrir, eins og kom fram í máli hv. þm. Smára McCarthys, sem hafa áhuga á að veita þinginu aðhald og þeim frumvörpum eða öðrum þingmálum sem hér fara í gegn. Það er mjög bagalegt þegar við köllum til fólk úr samfélaginu að það fái nánast engan undirbúningstíma áður en það á að gefa yfirgripsmikið álit á þeim þingmálum sem hér eru til umfjöllunar.