146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

skipulag þingstarfa, orð fjármálaráðherra í viðtali.

[13:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að vandamálið sé líka lengd umræðna í hverju máli fyrir sig. En það getur ekki orðið vandamál fyrr en við vitum hvað er á dagskrá yfirleitt. Við fáum drög að dagskrá eftir mánudagsfundi þingflokksformanna sem eru hvorki tæmandi né nákvæm. Það eru sérstakar umræður u.þ.b. á þessum dögum. Það er kannski þetta frumvarp hérna, kannski er það næsta dag. Þingmannafrumvarp er kannski í lok miðvikudags. Hver veit? Þetta eru alla vega ekki aðstæður sem hjálpa til þegar kemur að því hvort lengd umræðnanna sé vandamál eða ekki. Til að byrja með þurfum við að vita hvað við erum að fara að ræða, síðan getum við farið að pæla í því hvort umræðutíminn eða annað sé sérstakt vandamál út af fyrir sig. Vissulega getur svo verið í einhverjum tilvikum. En við verðum að fá að vita dagskrána ef við ætlum að geta undirbúið okkur.