146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Frú forseti. Þjóðin býr við mörg óuppgerð mál. Þar má nefna sem dæmi óuppgert fjármálahrun árið 2008. Nú áratug seinna stendur til að selja bankana aftur. Væri ekki lag að hæstv. fjármálaráðherra setji aðskilnað fjárfestingar- og viðskiptabanka í forgang áður en það er gert? Ætlum við að endurtaka söguna án þess einu sinni að gera hana upp? Ætlum við að setja þá nauðsynlegu varnagla inn í fjármálakerfið sem þarf til að sagan endurtaki sig ekki?

Óuppgerð svik við niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um grundvöll nýrrar stjórnarskrár árið 2012 sitja enn djúpt í mörgum og óhjákvæmilega fá þau mig til að spyrja mig: Hvernig gat það gerst í þróuðu lýðræðisríki að þjóðarvilji, framsettur í þjóðaratkvæðagreiðslu, væri blákalt virtur að vettugi á þennan hátt án nokkurra eftirmála? Hvað sem mönnum kann að finnast efnislega um nýju stjórnarskrána þá hlýtur mönnum að finnast það óeðlilegt að farið sé á þennan hátt á svig við afgerandi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu.

Síðastliðið vor reið annað áfall yfir þjóðina. Panama-skjölin upplýstu um svik helstu ráðamanna þjóðarinnar við almenning í landinu. Við kjósendur sjálfa er höfðu veitt þeim það umboð er þeir störfuðu eftir. Stærstu mótmæli Íslandssögunnar komu í kjölfar stærsta gagnaleka sögunnar.

Endurreisn heilbrigðiskerfisins er annað dæmi. Einkavæðingardraugurinn heldur áfram að svífa yfir vötnum með vafasömum afkastahvötum, tilfinnanlegum skorti á gæðaeftirliti og himinháum arðgreiðslum. Græðgi og gróðavon annars vegar og heilsa þjóðarinnar hins vegar fara ekki saman.

Ég er gríðarlega þakklát þeim sem veittu mér það umboð sem leyfir mér að standa hér nú og ávarpa þing og þjóð. Ég þakka ykkur traustið og mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að inna þetta hlutverk af hendi með sóma sem samfélagsþegn og sem undirmaður kjósenda, undirmaður íslensks almennings.


Efnisorð er vísa í ræðuna