146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Gjaldtaka fjármálastofnana er fyrirbæri sem almenningur veltir fyrir sér á hverjum degi. Alþingi og ríkisstjórnir hafa á fyrri stigum látið málið til sín taka og fyrir skömmu fjallaði formaður Neytendasamtakanna um málið í útvarpsviðtali. Hann gerði að umtalsefni ýmis þjónustugjöld bankastofnana og upplýsti að stöðugt bærust kvartanir frá einstaklingum sem ekkert botnuðu í samsetningu og ástæðum gjaldtökunnar. Þegar bankastofnanir væru inntar eftir röksemdum væri oft fátt um svör og rökin ekki augljós eða borðleggjandi. Formaður samtakanna segir að bankakerfið sé að breytast. Það sé að minnka þjónustu sína, fækka starfsfólki, en á sama tíma sé verið að auka gjaldtöku, fjölga gjaldstofnum, alls konar færslugjöldum, og það kalli auðvitað á spurningar. Bankarnir séu að spara peninga með því að loka útibúum. Þeir þurfi þá ekki að borga leigu, ekki laun, ekki kaupa tölvur eða húsgögn og svo framvegis. En gjaldtaka af ýmsu tagi vex engu að síður.

Formaður upplýsti að nú væri verið að innleiða Evrópureglur um eftirlit með gjaldtöku fjármálafyrirtækja þar sem Íslendingar hafi verið aftarlega á merinni. Það skipti miklu að framkvæmdin heppnist vel. Gagnrýnið og virkt eftirlit með hagsmuni neytenda að leiðarljósi sé lykilatriði. Það séu þó efasemdir innan Neytendasamtakanna um að þetta eigi heima á borði Fjármálaeftirlitsins sem skiptir sér lítið beinlínis af hagsmunum einstakra viðskiptamanna og er spurning hvort það sé hlutverk þess yfir höfuð. Í Evrópureglunum sé aðilum utan stjórnkerfisins heimilað að hafa eftirlit með ákveðnum þáttum, t.d. gjaldtöku af þessu tagi. Formaðurinn sér ekkert því til fyrirstöðu að Neytendasamtökin geti komið þarna að og vill gera þjónustusamning við fjármálaráðuneytið um að sinna þátttöku í verkefninu. Neytendasamtökin hugsi fyrst og fremst um hagsmuni sinna umbjóðenda en ekki um hagsmuni fjárfesta eða annarra stærri aðila.

Nú er spurningin: Hvernig taka stjórnvöld, þingmenn og ráðherrar í þetta þarfa mál neytenda á Íslandi?


Efnisorð er vísa í ræðuna