146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil fá að eiga orðastað við hv. þm. Jónu Sólveigu Elínardóttur. Megináhersla í utanríkisstefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar er að byggja samstarf við Evrópusambandið á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið líkt og segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í viðtali við bandaríska dagblaðið The Washington Times 23. febrúar sl. segir hv. formaður utanríkismálanefndar, með leyfi forseta:

„EFTA is not enough.“

Og síðar, með leyfi forseta:

„Right now our voice is not heard, and we do not have a seat at the table when the final decisions are made.“

Í íslenskri þýðingu:

Eins og staðan er nú heyrist rödd okkar ekki og við höfum ekki sæti við borðið þegar endanlegar ákvarðanir eru teknar.

Sum sé, ef ég skil þetta rétt og á sama hátt og mbl.is lýsti í frétt sinni um málið, þá er það mat hv. formanns utanríkismálanefndar að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og aðild Íslands að fríverslunarsamtökum Evrópu dugi ekki lengur til þess að tryggja hagsmuni Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Orð hv. þingmanns urðu tilefni til orðaskipta varaformanns Framsóknarflokksins og utanríkisráðherra hér í gær þar sem utanríkisráðherra sagðist ekki vera sammála formanni utanríkismálanefndar.

En hvað á hv. þingmaður nákvæmlega við í þessu viðtali við The Washington Times? Ef hún hefur hvorki trú á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið né aðild Íslands að EFTA, hefur hún þá ekki trú á utanríkisstefnu ríkisstjórnar sinnar? Er samhljómur innan ríkisstjórnarflokkanna um þessa afstöðu til EES-samningsins? Hefur afstaða varaformanns Viðreisnar til EES og EFTA verið rædd innan ríkisstjórnarflokkanna? Hefur hv. þingmaður rætt afstöðu sína frekar við utanríkisráðherra? Er von á áherslubreytingum í utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar þegar kemur að EES og EFTA?

Það vildi ég gjarnan fá að heyra um frá hv. þingmanni.


Efnisorð er vísa í ræðuna