146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

störf þingsins.

[14:14]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er til þess vinnandi að hvetja til þverpólitískrar samstöðu á þessum fremur deilukenndu tímum á Alþingi. Mitt mál varðar Mývatn og nágrenni sem ekki þarf að fjölyrða um sem náttúruverðmæti. Nú er svo komið vegna fjölgunar íbúa og blómlegs landbúnaðar og sístækkandi hóps ferðamanna að frárennslismál í lélegu ásigkomulagi eru tekin að vekja mikla athygli síðustu þrjú, fjögur árin eða svo. Nú er farið að ræða af mikilli alvöru um gríðarlega brýnar úrbætur, reyndar í dæmigerðum Íslandsstíl, að bregðast við þegar menn eru um það bil að mála sig út í horn.

En gott og vel, brettum þá upp ermar. Það er ekki of seint. Vegna sérlaga um verndun Mývatns og vegna þess að svæðið er svokallað Ramsar-svæði, alþjóðlegt verndarsvæði votlendis, stendur það upp á ríkisvaldið jafnframt sveitarfélaginu að bjarga Mývatni frá þeim skaða sem áframhaldandi ónóg frárennslishreinsun og -förgun hefur í för með sér. Verðmiðinn er hár. Að hluta vegna seinagangsins við úrbæturnar. Þetta eru einar 700–800 millj. kr.

Nú hefur hv. umhverfis- og samgöngunefnd opnað verkefnið sín megin að frumkvæði formanns hennar og mun vinna sína vinnu í töluverðri eindrægni. Þá er jafn nauðsynlegt að sem flestir þingmenn geri það sama, í þágu Mývatns, íbúa, ferðamanna, okkar allra, og í þágu eðlilegrar og skynsamlegrar náttúruverndar. Til þess hvet ég hér úr þessum ræðustól. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Því við erum jú öll Mývatnsvinir, ekki satt?


Efnisorð er vísa í ræðuna