146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

staða fanga.

[14:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu sem setur puttann á mjög margar brýnar spurningar sem hver um sig ætti í raun erindi í sérstaka umræðu. Þessi áherslubreyting þar sem við erum að færast frá refsistefnu yfir til betrunar er til hins góða og eins og kemur fram hjá hæstv. ráðherra er þetta ein skilvirkasta leiðin til að draga úr endurkomum fanga og náttúrlega það sem skiptir meira máli, að hjálpa þeim að öðlast betra líf.

Betrunin krefst þverfaglegrar vinnu innan fangelsanna sem er allt of hætt við að á niðurskurðartímum sé túlkuð sem viðbót, ekki kjarnastarfsemi, og hún á undir högg að sækja þegar sultarólin er hert hjá opinberum stofnunum sem fangelsin eru. Ég myndi gjarnan vilja heyra frá ráðherranum í ljósi þess að það sem við viljum væntanlega sjá til að betrun eigi sér stað í fangelsiskerfinu er myndarleg aðkoma menntamálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, hvort sem það er heilbrigðis- eða félagsmálahlutinn, og síðan sveitarfélaga til að hjálpa föngum að snúa við blaðinu innan veggja fangelsisins og hjálpa þeim síðan að haldast á beinni braut þegar þeir losna úr fangelsi.

Þá langar mig að heyra í ráðherranum um fjárveitingar vegna þess að við heyrum allt of oft þessa dagana að lög um opinber fjármál eru notuð sem afsökun fyrir sveltistefnu í opinberum rekstri. Megum við eiga von á því að ráðherrann beiti sér fyrir því að fjárveitingar (Forseti hringir.) til fangelsismála endurspegli þá þörf sem vissulega er til staðar fyrir þverfaglega, fjölbreytta og metnaðarfulla þjónustu við fanga til að koma í veg fyrir að þeir brjóti af sér á nýjan leik?