146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

staða fanga.

[14:37]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Virðulegi forseti. Þakka ber hv. þm. Birgittu Jónsdóttir fyrir umræðuna og að vekja með henni athygli á þessum mikilvæga málaflokki. Málaflokkurinn varðar hóp sem á eflaust ekki allt of marga málsvara og því miður heyrast viðhorf um að þeir sem í fangelsum sitja eigi fátt eitt gott skilið.

Hv. þingmaður spurði sérstaklega að því hvað úrræði væru í boði fyrir fanga þegar afplánun lýkur til að hjálpa þeim að verða virkir þegnar og forðast að lenda í vandræðum að nýju, aðlagast samfélaginu að afplánun lokinni. Ég vil leyfa mér í því samhengi að nefna frumvarp til laga sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir hefur lagt fram og ég er meðflutningsmaður að ásamt fleiri hv. þingmönnum. Gerð er tillaga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og er þar lagt til að ef fangi hefur unnið eða verið í námi eða starfsþjálfun á meðan á afplánun stendur ávinni hann sér rétt til atvinnuleysisbóta að afplánun lokinni.

Þetta er mikilvægt því að það er ekki alltaf auðvelt fyrir manneskju sem er að koma úr fangelsi að fá vinnu strax. Það er ekki gott að standa uppi atvinnulaus og án bóta og þetta þarf að laga. Af hverju er þetta mikilvægt? Jú, það gefur augaleið að ef afplánun lýkur og einstaklingurinn hefur ekki stuðningsnet til þess að koma sér af stað aftur í samfélaginu er viðkomandi líklegri til þess að fara af beinu brautinni að nýju.

Virðulegi forseti. Nái þessar breytingar fram eykur það hvata og þar með líkur á því að fangar stundi vinnu eða nám og/eða nýti starfsþjálfun í fangelsinu því að það hjálpar þeim líka þegar afplánun lýkur. Þar með aukast tækifæri (Forseti hringir.) til að fóta sig að nýju og hefja nýtt líf innan ramma laganna, í stað þess að fara út af sporinu.