146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

staða fanga.

[14:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu og sömuleiðis ráðherranum fyrir hennar svör. Það eru margþættar spurningar sem frummælandi leggur hér fram en það sem ég vil sérstaklega að nefna í þessari umræðu er undirbúningur og hvað við getum gert til að hjálpa föngum að komast aftur inn í samfélagið og draga þar af leiðandi vonandi úr endurkomu inn í fangelsi.

Það hefur sýnt sig aftur og aftur í rannsóknum sem gerðar hafa verið bæði hér og erlendis að það er oft mikill kvíði og óvissa hjá föngum í aðdraganda þess að afplánun lýkur. Sú óvissa tengist sömu þáttunum. Það eru tengslin við fjölskylduna; hvernig mun fjölskyldan taka á móti þeim þegar þeir koma út úr fangelsi? Verður öruggt húsnæði til staðar? Verður eitthvert húsnæði til staðar? Hvað með peninga til að lifa af? Verður hægt að fá vinnu? Ætlar einhver að ráða mig í vinnu þar sem ég hef setið í fangelsi?

Þessar rannsóknir hafa líka sýnt að þó að við teljum að við gætum verið með miklu betri úrræði innan fangelsanna og staðið miklu betur að hlutunum líður þeim þó betur sem tekið hafa þátt í þeim meðferðarúrræðum og þeim úrræðum sem þó eru í boði innan fangelsanna. Það kemur líka mjög skýrt fram að líkur eða hætta á endurkomu, endurkomumynstrið, tengist mjög neyslumynstri eða notkun á vímuefnum og áfengi. Flestir eru í mikilli neyslu þegar þeir eru úti í samfélaginu samkvæmt þessum rannsóknum. Þess vegna er mjög mikil þörf á meðferðarúrræðum.

Ég vil ítreka það sem ég nefndi hér sérstaklega varðandi húsnæðismálin. Nú erum við með frjáls félagasamtök eins og Vernd sem hafa verið að sinna verkefnum við að hjálpa föngum við að komast aftur inn í samfélagið. En tryggja þarf að húsnæði sé til staðar (Forseti hringir.) þegar menn eru að koma undir sig fótunum og að stutt sé sérstaklega við þennan hóp því að hann hefur aftur og aftur orðið undir og fær ekki þá athygli sem hann þarf á að halda.