146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

staða fanga.

[14:48]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, fyrir þessa umræðu og hæstv. ráðherra Sigríði Á. Andersen fyrir svör hennar í þessum efnum.

Það er mjög mikilvægt að við ræðum stöðu fanga og hvar við getum gert betur, sem er auðvitað víða. Mig langar að beina sjónum að nokkrum atriðum en fagna áherslu hv. þm. Loga Einarssonar á samfélagsþjónustu sem ég tel nauðsynlegt að endurskoða. Hann fór vel yfir kosti þess að breyta kerfinu.

Eins og hefur komið fram er af mörgu að taka. Ég held að það sé skylda okkar að skoða grunninn að því leyti sem við getum. Hví er svona stórt hlutfall af föngum ungir karlmenn? Hvar höfum við brugðist ungum karlmönnum? Jú, í geðheilbrigðismálum, en ekki bara á ungum karlmönnum heldur auðvitað öllum föngum að vissu leyti.

Við þurfum að styrkja kerfið á fyrsta stigi vandans þar sem við megum ekki bregðast þeim sem glíma við geðræn vandamál. Það hlýtur að vera markmið okkar til lengri tíma að fækka föngum og setja geðheilbrigðismál fanga í samhengi við geðheilbrigðisstefnu stjórnvalda. Þá styðjum við við þá sem glíma við geðræn vandamál í fangelsum landsins m.a. með bættri sálfræðiþjónustu þar inni. Það er auðvitað hluti af betrunarstefnunni. Ég vona að niðurstaða vinnuhópsins, sem vinnur nú í innanríkisráðuneytinu varðandi geðheilbrigði fanga, muni nýtast nýjum ráðherra vel varðandi þetta þegar hann mun ljúka störfum.

Þá langar mig að beina sjónum að stöðu biðlista eftir afplánun. Það er alvarleg staða að fólk sé á biðlistum eftir afplánun, að fólk fái ekki að klára sín mál. Með aukinni fullnustu utan fangelsa, rafrænu eftirliti, sem ég fagna, og nýju fangelsi trúi ég að þessi listi muni styttast, enda er ekki boðlegt að fjöldi fólk bíði eftir fangelsisvist í lengri tíma. Einhver tími hlýtur að vera of langur tími sem hægt er að láta einstaklinga bíða eftir afplánun. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra aðeins um stöðuna á biðlistum og áherslum hennar til að koma til móts við þá.

Virðulegi forseti. Hér bíða okkar mikilvæg verkefni. Ég er reiðubúin að styðja ráðherra og þingmenn til allra góðra verka í þessum málaflokki.