146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

staða fanga.

[14:52]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Fjodor Dostojevskí á að hafa sagt að unnt sé að dæma samfélag eftir því hvernig það komi fram við fanga. Mér fannst þetta alltaf sem stærðfræðingi heillandi leið til að leggja mat á gæði samfélaga. Þetta er auðvitað ekki eina leiðin sem notuð er eða sú leið sem oftast er notuð en meiningin er samt sú að gæði verða ekki mæld með því að líta á þá sem hafa það best heldur einmitt á þá sem hafa það verst. Og ekki aðeins hina fátæku og sjúku því að þeir njóta þó oftast samúðar samfélagsins heldur þá sem hafa það verst og njóta ekki þeirrar samúðar. Framkoma okkar við þá er ekki aðeins mælikvarði á hið efnislega ríkidæmi samfélagsins heldur einnig virðingu okkar fyrir grundvallarreglum réttarríkisins, þessum minna vinsælu réttindum minna vinsæls fólks.

Í viðtali sem ég sá í bandarískum sjónvarpsþætti spurði þáttastjórnandinn fanga sem setið hafði í fangelsi stærstan hluta ævi sinnar og myndi líklegast enda hana þar hvernig lífið væri, hvernig maturinn væri, hvort rúmin væru hörð og fötin óþægileg. Svarið var eitthvað á þessa leið, eftir minni: Það spyrja allir um hinar fýsísku aðstæður. Við getum aðlagast þeim. Það er annað sem er erfitt.

En vandinn í þessum málaflokki er að þrátt fyrir að aðgerðir sem leggja áherslu á betrun eigi stuðning að nafninu til getur fjarað undan stuðningnum þegar umræðan fer að snúast um tiltekna brotaflokka eða jafnvel tiltekna brotamenn. Það sást á umræðum um breytt lög um fullnustu refsinga hér á seinasta kjörtímabili. Sú leið sem þar er fetuð er mjög góð. En reynslan sýnir að það er ekki augljóst að almenningur sé alltaf sáttur. Þar dugar ekki bara að segjast fylgjandi meginstefnu heldur þarf að bakka upp framkvæmd hennar, bakka upp mannúðleg afplánunarúrræði, bakka upp styttri og fjölbreyttari refsiúrræði og ekki fallast sjálfkrafa á lengri refsiramma bara til þess að hljóma eins og maður taki viðkomandi afbrot alvarlega.