146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

staða fanga.

[15:00]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Hyggst innanríkisráðuneytið koma á samstarfi við sveitarfélög og opinberar stofnanir, eins og t.d. Vinnumálastofnun, til að móta sérstakt ferli og prógramm fyrir fanga sem ætti að hefjast nokkru áður en afplánun lýkur þannig að fanginn sé undirbúinn og hafi að einhverju að hverfa? Í Danmörku hafa til dæmis verið gerðir samningar við sveitarfélög og í Noregi við frjáls félagasamtök sem tryggja að enginn fangi sé án húsnæðis eða lífsviðurværis þegar hann kemur úr fangelsi. Þannig halda betrunarúrræðin áfram fyrir fanga sem vilja þiggja þau.

Þó svo að það sé ekki beinlínis á verksviði innanríkisráðuneytisins hefur ráðuneytið þó sýnt því áhuga að fylgjast með því hvernig einstaklingar sem ljúka afplánun fái almenna þjónustu í velferðarkerfinu og hverju sveitarfélagi fyrir sig, þó svo að sú aðstoð sem þar um ræðir sé á ábyrgð velferðarráðuneytisins. Ólöf Nordal upplýsti, þegar hún gegndi embætti innanríkisráðherra, að samráð við velferðarráðuneytið um að tengja saman þessa málaflokka hefði verið í burðarliðnum á síðasta kjörtímabili. Í þessu samhengi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að tilefni sé til að tryggja að jafnræðis verði gætt gagnvart kvenföngum þegar kemur að afplánun í opnum fangelsum og áfangaheimili sambærilegu við Vernd.

Nú er þessi málaflokkur risastór eins og komið hefur fram. Ljóst er að ég mun þurfa að eiga fleiri sérstakar umræður við hæstv. ráðherra um refsivist fyrir t.d. börn og unglinga. Ljóst er að engar úrbætur munu eiga sér stað nema hæstv. dómsmálaráðherra hyggist berjast fyrir meiri fjármunum í málaflokkinn. Því langar mig að vita hvort hún hyggist gera það. Það þurfa í það minnsta að vera átta sálfræðingar og mun fleiri félagsráðgjafar en nú er. Það kostar.

Ég vil síðan halda því til haga að endurkoma telst ekki endurkoma í kerfinu okkar ef viðkomandi hefur ekki setið í fangelsi síðustu fimm árin, svona ykkur til upplýsingar.

Að lokum vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir samræðuna sem og öðrum sem hér hafa tekið til máls.