146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[15:33]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra yfirferð á þessu máli. Það er ýmislegt í máli hennar sem ekki er annað hægt en að taka undir þó að það sé kannski ekki alltaf alveg allt. Við ræðum hér rammaáætlun eða áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að hafa í huga þegar við ræðum þessi mál að rammaáætlun er verkfæri, verkfæri sem við bjuggum til á sínum tíma til að ná fram ákveðnum markmiðum, mjög háleitum markmiðum; að reyna að ná sátt um virkjanamál á Íslandi. Það er vissulega háleitt markmið og trauðla verður það nokkurn tímann þannig að fullkomin sátt ríki þar um.

Hæstv. ráðherra kom sjálf inn á að skoða þyrfti ákveðna þætti í þessu verkfæri sem við höfum búið okkur til. Þetta er náttúrlega bara mannanna verk. Það þurfi að skoða betur hvernig við metum þjóðhagslega hagkvæmni, skoða ýmislegt frekar. Ég velti fyrir mér hvort það eitt og sér sé ekki tilefni til að staldra aðeins við. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kom réttilega inn á það í máli sínu hvernig viðhorf hafa breyst í nærumhverfi, t.d. neðri hluta Þjórsár. Ef við horfum fram á að á næstunni séum við að fara í einhverja vinnu til að meta betur ýmsa þætti sem við getum ekki metið nægjanlega í dag velti ég fyrir mér hvað liggi á. Hæstv. ráðherra kom inn á að það væru rúm 1.400 megavött í nýtingarflokki. Það eru tvær Kárahnjúkavirkjanir rúmlega eða þar um bil.

Vantar okkur rafmagn? Vantar okkur rafmagn úr tveimur Kárahnjúkavirkjunum? Það má vel vera að einhverjum finnist það. En í hvað ætlum við að nota þetta rafmagn? Ég hef saknað þess að stjórnvöld setji sér orkunýtingaráætlun því mér finnst það vera rétta leiðin. Fyrst hugsum við: Þurfum við rafmagn? Í hvað þurfum við rafmagnið? Til hvers ætlum við að nýta það? Síðan veltum við því fyrir okkur hvernig við náum í það rafmagn sem við þá sannarlega ætlum að nýta. Það má vel vera að okkur vanti rafmagn og ég efa ekki að við getum á einhvern hátt brúkað rafmagn, en hvernig ætlum við að gera það? Það skiptir töluvert miklu máli hér. Erum við að virkja fyrir einstaka stóriðju eða erum við að virkja fyrir orkuskipti í samgöngum? Erum við að virkja fyrir græna orku? Hvað ætlum við að gera við þetta rafmagn?

Mér finnst við eiginlega vera komin á þann tímapunkt að við eigum að staldra aðeins við. Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra flutti skýrslu varðandi stöðuna í umhverfismálum. Ég fagnaði þeim tóni sem í þeirri skýrslu er að finna. Þar finnst mér kveða við þann nýja tón að verið sé að horfa raunsætt á stöðuna og hvert verkefnið er. Hvert þurfum við að fara til að ná þeim markmiðum sem við höfum sjálf sett okkur í loftslagsmálum? Ég hef talað fyrir því hér oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að við þurfum að fara að horfa heildstæðar á þessi mál. Við þurfum að horfa á hvað við ætlum að virkja, hvort við ætlum að virkja. Við þurfum að horfa á hvernig við nýtum orkuna. Inn í það kemur orkunýtingaráætlun. Við þurfum að horfa á hvernig við ætlum að koma því rafmagni sem við virkjum eða búum til á nýtingarstaðinn. Inn í það kemur áætlun um línulagnir. Og við þurfum að hafa sem yfirmarkmið yfir þetta allt saman loftslagsmarkmiðin sem við sjálf höfum undirgengist og eigum að sjá sóma okkur í að gera betur en þau markmið kveða á um.

Hæstv. umhverfisráðherra talaði um að þetta væri öflug orkunýtingaráætlun. Svo allrar sanngirni sé gætt talaði hæstv. ráðherra líka um að áætlunin væri tvíþætt, inni í henni væri líka mikil vernd. Ég get alveg tekið undir það. Rammaáætlun hlýtur alltaf á endanum að verða málamiðlun. Ef menn ætla að horfa heildstætt á hvað eigi að gera við alla þá kosti sem hægt er að nýta til að virkja hlýtur það á endanum að verða einhvers konar málamiðlun. En á hvaða forsendum er sú málamiðlun gerð? Er hún gerð á þeim forsendum að tíminn sé af skornum skammti? Að við séum að brenna inni með eitthvað? Þurfum að stökkva af stað? Það er ekkert hægt að draga fjöður yfir það að sú rammaáætlun sem hér er endurlögð fram var unnin á hálfgerðum handahlaupum. Bætt var við kostum inn í flýtimeðferð, eins og hæstv. ráðherra fór yfir, þar sem verkefnisstjórnin og faghópurinn þurftu beinlínis að kría út aukafrest til að geta sinnt ákveðnum rannsóknum og könnunum og skilað af sér. Að einhverju leyti var hægt að skilja það á fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra að þar lá á að leggja fram rammaáætlun til að uppfylla þær lagaskyldur. Svo er ekki núna. Þetta þarf ekki að samþykkjast á morgun. Við höfum tíma til að stíga varlega til jarðar og skoða þetta. Og mér finnst dálítið slæmt að það sem var unnið í ákveðinni tímapressu á síðasta kjörtímabili skuli vera lagt hér fram þegar við höfum nægan tíma til að skoða málin betur óbreytt.

Samfélagsleg áhrif, við höfum skoðað þau. Í svari hæstv. ráðherra við andsvari hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur þá skildi ég ekki alveg hvernig það hvernig við björgum villtum laxastofnum, hvort það sé hægt og með hvaða leiðum, er tengt framkvæmdaleyfi. Það hlýtur að vera grunnforsenda þess hvort við förum í virkjun að vita hvaða áhrif hún hefur á villta laxastofninn. Ef það er eitthvað órannsakað í því hlýtur að vera einboðið að sá virkjunarkostur er ekki fullrannsakaður. Það er ekki að fullu kveðið á um hvaða mótvægisaðgerða er hægt að grípa til og hvort þær virki. Þetta er eins og uppskrift að kosti sem á að vera í biðflokki.

Mér finnst að við eigum að skoða þetta mál. Ég ætla að leyfa mér í þessu máli að vera í stóru línunum. Við þurfum að horfa á þetta heildstætt. Hvað er það sem okkur vantar, hvað ætlum við að gera við það, hvernig ætlum við að nýta það og hvernig ætlum við að koma því í það form og á þann stað að það verði hægt að nýta það? Ég hef velt því fyrir mér undanfarið í umræðum hér í þessum ræðustól og í lestri þingskjala og málefna hér hvort það sé kominn tími til að setja á fót einhvers konar nefnd þvert á flokka sem skoðar þessi mál alveg heildstætt, þar sem allir þingflokkar koma að og við séum ekki hver í sínu horni að leggja eitthvað til eða berjast fyrir einhverju og þar sem allar þessar áætlanir tali saman. Ég held að það sé lykilatriði í dag að við horfum á þetta heildstætt, skoðum alla þætti málsins en byrjum ekki á þeim enda að ákveða að gera eitthvað. Eins og hér hefur verið bent á er það að vera í nýtingarflokki og þegar það er komin virkjun er það óafturkræf framkvæmd.

Að því sögðu ætla ég að segja að ég skil þann vanda og það stóra verkefni sem hæstv. umhverfisráðherra stendur frammi fyrir, að þurfa að sætta gerólík sjónarmið og eins og ég kom inn á hljóta einhver þeirra á endanum að stangast á. En ég held að til þess að það verði sem best gert þá eigum við að gera rammaáætlun, verkfærið sem við nýtum, sem besta úr garði þannig að það verði sem breiðust sátt um hana. Ég minni á að samkvæmt lagabókstaf ber umhverfis- og auðlindaráðherra að leggja fram rammaáætlun (Forseti hringir.) á fjögurra ára fresti. Það segir hins vegar ekkert í lögunum samkvæmt orðanna hljóðan að það þurfi að samþykkja hana.