146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[16:10]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ræðuna þó að ég verði nú að lýsa því yfir að ég er í meginatriðum ósammála hv. þingmanni og skilningi hans þegar hann lýsir því yfir að honum finnist, ef ég skildi rétt, rammaáætlun vera handónýt. Ég er algerlega ósammála því. Ég tel þetta vera gott stjórntæki til að sætta ólík sjónarmið.

Varðandi það sem kom fram hjá hv. þingmanni í ræðunni og eins, ég heyrði ekki nógu vel, í andsvörum við mig sjálfa varðandi Orkustofnun og svo verkefnisstjórn er ég hrædd um að það sé rangur skilningur hjá hv. þingmanni á lögum. Það er hlutverk Orkustofnunar að ákveða hvenær orkukostur er nægilega skilgreindur til að fara til efnislegrar umfjöllunar hjá verkefnisstjórn. En það er svo verkefnisstjórn sem ákveður hvort hún fjalli um skilgreinda orkukosti. Það er dálítill munur þarna. Þá getur verkefnisstjórn t.d. lagt til hliðar kosti sem þegar hafa verið flokkaðir og þá á grundvelli þess að ekki eru til staðar ný gögn og engar forsendur til endurmats.

Varðandi orkuþörf, og þetta heyrir maður oft í umræðunni og mér finnst miður ef það kom ekki nógu skýrt fram hjá mér áðan, þó held ég að það hafi alveg verið skýrt, ég veit bara ekki hvort það hentar málstað hv. þingmanns að tala um það, þá eru til fyrir nægjanleg megavött ef fólk vill virkja. 1.400 megavött er verið að leggja til hér í nýtingarflokki. Er það ekki nóg? Hvern vantar orku? Hvaða stóriðja er það sem vantar þessa orku? Ef við erum að tala um almenning sem vantar orku þá er það á allt öðrum skala. (Forseti hringir.) 90% orkunnar sem við virkjum hér á Íslandi fer til stóriðju, um 10% til almennings. Það má byggja eina smávirkjun ef það vantar einhver 6, 7 megavött fyrir einhverja. Það er ekki vandamálið. En 1.400 megavött, þegar allt er talið, er hér lagt til. Er það ekki nóg?