146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[16:16]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir innleggið. Ég verð samt að segja að mér finnst hann vera fullsvartsýnn á þetta ágæta verkfæri sem við erum með í höndum. En af því að hann kom aðeins inn á virkjunarkosti í Skagafirði og talaði mikið um ónýti þessa plaggs verð ég að segja að mér finnst rökstuðningurinn með því að setja Skatastaðavirkjun C og D í verndarflokk mjög góður. Það er verið að vísa til þess að þarna eru fyrirbæri sem mundu fordjarfast, svo sem eins og sífrerarústir sem við berum alþjóðlega ábyrgð á. Það er líka verið að tala um að framkvæmdir þarna geti spillt stórum minjaheildum í Austur- og Vesturdal frá 870–1400. Okkar hlutverk er líka að vernda minjar og náttúru. Þegar við erum með eitthvað sem við berum alþjóðlega ábyrgð á og þegar við horfum upp á að við getum meðal annars spillt sögulegum minjum frá þessum tíma finnst mér að við þurfum aðeins að staldra við. Mig langar að fá að heyra álit hv. þingmanns á þessu.