146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[16:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég man rétt varðandi umræðu um Orravatnsrústir, sem er einmitt sífreri eða hvað það er kallað, þá gerir t.d. hönnun á virkjunum sérstaklega ráð fyrir að hlífa þeim. Það er gert ráð fyrir því, ef ég man rétt, í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar að svo sé.

Eflaust er að finna menningarminjar sem eru merkilegar þarna. Við vitum líka að við erum sífellt að finna minjar þegar við gröfum grunn til að byggja hús. Þær eru kannaðar og þeim gerð ákveðin skil. En það er ekkert skoðað í þessu plaggi hvað það þýðir að vernda og geyma þessar minjar á móti því t.d. að nýta orkuna til atvinnuuppbyggingar í Skagafirði. Fyrir fólkið. Fyrir íbúana, sem skipta þúsundum. Það er ekkert verið að meta það í þessu plaggi, ekki einu sinni gerð tilraun til þess. Það er það sem er að því. Einhvern tíma á fyrri stigum rammaáætlunar var það metið til að draga niður gildi þessara virkjana vegna þess að þá var verið að fjalla um línulögn. Hún var svo löng yfir Sprengisand, minnir mig. Það var ekkert metið ef línurnar hefðu farið í hina áttina, niður í Skagafjörð, og byggju þar til atvinnu.

Vinnan við þetta er einfaldlega ekki nógu góð. Þess vegna sitjum við uppi með að plaggið virkar ekki. Það er einfaldlega mitt mat. Ég vil taka fram að ég er ekki viss um að allir samflokksmenn mínir deili þeirri skoðun minni, svo að það sé alveg á hreinu.

Við þurfum vissulega að vega og meta hverju er verið að fórna. Ég er ekki að gera lítið úr því. En það verður þá að meta hinn kostinn líka. Hv. þingmaður hlýtur að vera búinn að sjá og kynna sér að það er ekki gert.