146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[16:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekkert auðvelt að koma upp með eitthvert verkfæri sem ætti að virka betur en rammaáætlun, en hún er bara eins og öll verkfæri, þau eru kannski fæst til sem eru alveg fullkomin þannig að þau henti fyrir alla. Ég ætla alla vega að vera ósammála hv. þingmanni enn þá um það að ég tel ekki fullreynt með rammaáætlun og held að þetta sé besta tólið sem við höfum alla vega í augnablikinu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að öðru, en hann talaði um hvort það væri nóg að líta til þess að raforka væri framleidd með loftslagsvænum hætti, því að það er auðvitað mikilvægt, ég tek undir það. En verður ekki líka að hafa áætlun um það að orkan fari svo í eitthvað sem er líka umhverfsvæn starfsemi og hvort við verðum ekki að ná þannig heildstæðri nálgun (Forseti hringir.) á málið sem er þá í takti við loftslagsmarkmið og Parísarsamkomulagið til þess að það sé í raun heil brú í því sem verið er að gera með virkjunina?