146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[16:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni með það að ef við ættum að axla þá ábyrgð sem okkur ber í loftslagsmálunum þá þurfum við vitanlega að horfa a.m.k. á tvo hluti. Það er annars vegar að nýta þá orku sem við höfum yfir að ráða, þær auðlindir, og beina þeim einmitt í þann farveg sem hv. þingmaður nefndi, til starfsemi sem er þá umhverfisvænni eða væn og til þess fallin að draga úr losun annars staðar án þess að auka hana hér, án þess að gera lítið úr þeim markmiðum og skyldum sem við höfum. Þetta er eitthvert ferli sem við ættum að sjálfsögðu að hafa.

Ég held reyndar að undanfarin átta til tíu ár kannski hafi orðið gríðarleg breyting í okkar samfélagi varðandi þetta. Ég held að við séum öll orðin miklu meðvitaðri um það að horfa til þeirra kosta sem geta nýtt okkar auðlindir, skapað störf, skapað verðmæti, en um leið ekki storkað eða ýtt okkar skuldbindingum einhvern veginn út af borðinu, þannig að við getum staðið keik og stolt af því. Ég held að við séum á þeim stað. Ég held að við séum búnir að finna það. Það breytir því ekki að mér finnst þetta plagg vera orðin bölvuð þvæla.