146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[16:49]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Það eru margir brandar á lofti þegar kemur að rammaáætlun. Við getum sennilega verið sammála um að hún er seint á ferðinni miðað við allan árafjöldann sem að baki er. Þá er ég ekki að meina hvað hana varðar heldur í virkjunarsögunni. En ég tel gagn að henni og er þar ósammála hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og tel þetta vera vaxandi og gagnlegt ferli, ferli ákvarðana sem er ekki hægt að vinna heildstætt nema með þessu móti. Þarna kemur fagfólk að og sem betur fer kemur þingið að einhverju öðru en að ákvarða um framtíð hverrar einstakrar virkjunar eins og gert var í gamla daga ef við orðum það þannig.

Við getum ekki litið til Norðmanna og sagt: Nú skulum við gera eins og þeir, því að þeir gerðu nákvæmlega þetta, bjuggu til rammaáætlun. Þeir eru búnir að virkja 28–30 þús. megavött með því að hafa að hluta til hliðsjón af rammaáætlun. Það hlýtur að vera eitthvað sem við getum horft til. Núna eru þeir að spá í aðra hluti vegna þess að landið er fullvirkjað. Það er búið að klára það sem hægt er að virkja af vatnsvirkjunum. Þar eru ekki jarðhitavirkjanir. Núna eru menn að horfa til vindorku og annarra slíkra kosta. Þá fara menn í annan gír, fara aðrar leiðir en með rammaáætlun.

Þessi flokkaskipan, þessir þrír flokkar eru auðvitað upphaf að lausn og samstöðu nægilega margra. Auðvitað verður ekki sátt um nýtingu jarðvarma og vatnsorku á Íslandi frekar en kvótakerfið. Í öllu stóru flokkunum í náttúrunytjum vegast á náttúrunytjar og náttúruvernd. Menn verða ekki sáttir. Þess vegna höfum við lýðræðislegar leiðir til að taka ákvarðanir. Við það verða þá þeir sem verða undir að una. Það er nú ekki flóknara en það. Þessir þrír flokkar sem hafa verið skilgreindir, hver er þá uppskeran núna? Í nýtingarflokknum eru þetta eins og hefur komið hérna fram um 1.400 megavött. 2.500–2.600 erum við búin að virkja. Þetta þýðir þá að svo komnu máli að efri mörk orkuframleiðslu á Íslandi eru í kringum 4.000 megavött.

Nú getur vel farið svo að hluti af stóriðjunni eða orkufreka iðnaðinum hérna hverfi úr landi. Þá losnar jú töluvert af afli. Og þegar horft er til þessa miðað við stærð samfélagsins erum við nokkuð rík. Horfum bara til Norðmanna með sín 28 þús. megavött.

Ég held að nýtingarflokkurinn sé orðinn þannig að hann sé umræðuhæfur. Skoðunarhæfur, matshæfur. Verndarflokkurinn. Þar er kominn góður árangur og við sem erum höll undir náttúruvernd erum býsna ánægð með margt þar eða flest. Biðflokkurinn. Þar teljum við hins vegar margt ónothæft í nýtingu innan þess flokks. En nú er hann til skoðunar, gagnaöflunar o.s.frv. Það þarf ekki að segja mikið meira um hann.

Í öllu þessu tali um nýtingaráætlun er sjálfbærni lykilhugtakið. Þessir þrír þættir sem ég ætla ekki að rekja, félagslegi, náttúrufarslegi og hagræni, þurfa allir vissulega að vera undir. Svo er búið að bæta inn í þetta hugtökum eins og hagkvæmni, arðsemi, þjóðarhag og öðru slíku. Um þessi hugtök og hvað þau innihalda snýst jú starfið að rammaáætlun, störf þessara fjögurra faghópa og verkefnisstjórnarinnar. Og um það mun 4. áfangi snúast.

Skoðum þá hvert þetta er komið eins og hæstv. umhverfisráðherra fór yfir. Faghópur 1 og 2 meta verðmæti lands og áhrif virkjana á náttúru og umhverfi, þaðan er röðunin komin. Af sjálfbærnihugtökunum erum við raunverulega að vinna fyrst og fremst með eitt. Er það ásættanlegt? spyr ég. Faghópur 3 sem átti að skoða áhrif á samfélagið lagði fram álit sem breytir ekki röðuninni, gagnast ekki við hana. Það er náttúrlega ekki ásættanlegt ef við ætlum að halda okkur við sjálfbærnihugtakið að fullu. Ef það skortir aðferðafræði þurfum við annaðhvort að finna hana eða búa hana til. Spurningin er alltaf þessi þegar talað er um samfélagið: Er verið að tala um nærsamfélagið? Er verið að tala um íslenska samfélagið í heild? Í því tilviki: Hvort vegur meira?

Nú er komið álit frá 110 ungmennum og ungu fólki varðandi Hvammsvirkjun. Skilaboðin eru skýr. Þetta er ósjálfbært að þeirra mati. Tökum við þá tillit til þess eða látum eins og ekkert sé? Auðvitað er það þannig að skiptar skoðanir, eins og hæstv. umhverfisráðherra benti á, eru alltaf til staðar. Hvernig reynum við þá að komast að mati á samfélagslegum áhrifum virkjana ef við horfum eingöngu á að skoðanir eru ólíkar án þess að reyna með einhverjum aðferðum að leggja mat á hver samfélagslegu áhrifin eru, hvort þau eru jákvæð, neikvæð eða hlutlaus?

Faghópur 4 átti að meta þjóðhagslegur forsendur og hagkvæmni. Hann fann ekki forsendur hjá sér til að gera það þannig að hagræni þátturinn í sjálfbærninni er bara úti.

Ef maður dregur þetta nú allt saman er það svo að matið er ónógt og því er ólokið. Ég get ekki séð að þetta sé nægilega vel reifað. Ég get heldur ekki séð að við getum haldið áfram og afgreitt þetta í vor eins og þetta sé í lagi. Þetta er ekki í lagi.

Hæstv. umhverfisráðherra kallaði rammaáætlun orkunýtingaráætlun. Hún er það ekki. Þetta er orkuframleiðsluáætlun. Þörfina fyrir orkuna á eftir að skilgreina miklu betur. Ég vil benda hæstv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni á að skorti orku í einhverju héraði eins og hans heimahéraði, Skagafirði, er auðvitað hægt að tengja raforku inn í það hérað án þess að þurfa að framleiða hana á staðnum. Það eru ekki stór samfélagsleg áhrif í stóru héraði af einni vatnsvirkjun sem er í gangi. Það eru það vissulega meðan hún er í byggingu. En það gegnir kannski öðru máli með jarðhitavirkjanir þar sem er hægt að búa til auðlindagarð o.s.frv. Vanti orku til nýsköpunar og annars slíks í einhverju héraði er náttúrlega auðvelt að tengja það inn. Og ég vil bara að nefna að það er hægt að framleiða mörg hundruð megavött á Íslandi til viðbótar við núverandi afl bara með því að stækka virkjanir eins og verið er að gera í Búrfelli, með því að breyta túrbínum og kalla þannig fram aukið afl, með því að hyggja að því að allar jökulár á Íslandi eiga eftir að auka rennsli sitt um 10–20% á næstu árum. Þannig er hægt að bæta við afl án þess að fara út í margar nýjar virkjanir.

Svo er auðvitað spursmál um forgangsröðun. Af hverju byrjum við t.d. á Hvammsvirkjun? Af hverju byrjum við ekki á einhverri annarri virkjun sem hefur miklu minni umhverfisleg áhrif ef við förum út í nýjar virkjanir á allra, allra næstu árum? Menn spyrja: Í hvað fer orkan? Hún fer í nýsköpun, fer í einar tvær eða þrjár kísiliðjur, fer í raforkuhluta samgangnanna, í gagnaver, innlenda eldsneytisframleiðslu. Og svo gleyma menn orkuspánni. Gamla orkuspáin sagði 500–600 megavött á okkur sjálf, smáiðnað og heimili, fram að árinu 2050. Þarna eru skulum við segja svo mörg hundruð megavött að það fer langleiðina upp í þau 1.400 sem eru til reiðu í nýtingarflokknum.

Þegar allt þetta er tekið saman er að mörgu að hyggja. Mér finnst reifun þessa máls hreint ekki í lagi.

Þá kemur að stóra jókernum eins og ég kalla það í öllu þessu orkutali. Það er djúpborunarverkefnið sem ég hef minnst á áður héðan úr ræðustól, IDDP-verkefnið. Segjum nú svo að það heppnist þannig að það er ekki bara búið að bora þessa 5 kílómetra tæpu holu sem er tilbúin heldur kemur í ljós að hún er virkjanleg og það eru aðrir möguleikar á öðrum háhitasvæðum til að gera nákvæmlega það sama. Þá erum við búin að gerbreyta orkumynstri Íslands. Við getum virkjað færri háhitasvæði en okkur hefur nokkurn tíma dottið í hug, getum látið t.d. bara þau duga sem komin eru í virkjun. Og þetta minnkar mjög þrýstinginn á vatnsvirkjanir. Þá megum við ekki gleyma að við þurfum blöndu af hvoru tveggja. Það er ekki hægt að reka raforkuflutningarkerfi án þess að hafa tvær tegundir af virkjunum því að það er ekki hægt að regúlera eða stýra straumi eða raforkuflutningum um landið án þess að geta slökkt og skrúfað. Og það er ekki hægt að slökkva og skrúfa á jarðhitavirkjunum en það er hægt að gera það á vatnsvirkjunum. Þannig að málið er nokkuð stórt. Ég ætla að hvetja til þess að atvinnuveganefnd (Forseti hringir.) fái einnig að skila áliti, fyrir utan okkur hjá umhverfis og samgöngunefnd, rétt eins og gert var síðast þegar þetta var til umræðu.