146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[17:01]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég segi einfaldlega svona: Ef við ætlum virkilega að hafa sjálfbærni að leiðarljósi í rammaáætluninni skiljum við ekki við hana þannig að við segjum um samfélagsáhrifin: Því miður, við tökum þau svo sem ekkert sérstaklega inn í þetta jafnvel þótt Orkustofnun hafi verið að biðja um það.

Hvað varðar hagrænu áhrifin eru ekki til tól og tæki. Vísindamennirnir sem kvaddir voru til treystu sér ekki til þess. En ætlum við þá að treysta okkur til að afgreiða áætlunina sem sjálfbæra rammaáætlun? Ég held ekki. Ég segi því einfaldlega að það þarf að finna leiðir, og ég hef alltaf trú á því að fræðimenn finni á endanum einhvern milliveg til þess að þessir þættir sjálfbærninnar séu líka metnir þegar kemur að því að flokka í flokka. Sérstaklega á það náttúrlega við um nýtingarflokkinn.

Auðvitað fer málið til nefndar og vonandi hefur nefndin þá tækifæri til að vega og meta hvort öll skilyrði séu til staðar. Ef svo er ekki verður þetta mál ekki afgreitt í vor. Þá verðum við að bíða með það eitthvað lengur. En ég held að orkufyrirtækin geti haft nóg að gera þó að rammaáætlun sé ekki tilbúin, vegna þess að eins og ég lýsti áðan er til fullt af verkefnum þar sem hægt er að bæta við hundruðum megavatta án þess að fara í nýjar virkjanir.