146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[17:03]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvernig sem við lítum á rammaáætlun þá veldur hún svolitlum vandræðum hvort sem er fyrir þá sem eru mjög hallir undir fjölda virkjana eða þá sem vilja fara mjög varlega, vegna þess að heilmikið hefur áunnist. Við erum komin með nýtingarflokk, við erum komin með biðflokk sem þarfnast skoðunar og við erum komin með verndarflokk sem er orðinn stór, þannig að auðvitað er freistandi að láta bara gossa og afgreiða þetta sisvona.

Ég er nú íhaldssamur en glámskyggn þannig að ég sé ekki almennilega fyrir mér hvort það myndi gagnast mér eða okkur eða þeim sem hugsa eins og ég, mjög mikið að gera það. En ég horfi á tilganginn með rammaáætlun, sem er að leiða til lykta aðferð til að tryggja sjálfbæra virkjunarkosti á Íslandi. Og ef við getum ekki uppfyllt nema einn þátt af sjálfbærniviðmiðunum þá stendur það í mér. Þess vegna tala ég svona. Nú getur vel verið að endirinn verði sá að við samþykkjum þetta, ég get ekki svarað fyrir það. Þá verðum við bara að gera það besta úr því. En ég teldi æskilegra að reyna betur, og þess vegna kallaði ég þetta vanreifað.