146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[17:14]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hans. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í nokkrar setningar í máli hans, bara svo ég skilji málið betur. Hv. þingmaður lýsti því yfir í upphafi málsins að skoða þyrfti hvern virkjunarkost í þaula, rannsaka ofan í grunn og vega og meta hvern kost. Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér að sú vinna fari fram og hvenær þarf henni að ljúka? Ég gat ekki heyrt betur á þingmanni en að hann legði mikla áherslu á að tillagan fengi þinglega meðferð og yrði kláruð í meðförum þingsins, væntanlega þá á yfirstandandi kjörtímabili. Telur hv. þingmaður að umhverfis- og samgöngunefnd, sem við sitjum saman í, og hann er búinn að nefna tvær aðrar þingnefndir, hafi færi á því að rannsaka hvern kost til hins ýtrasta á þeim skamma tíma? Ég gat heldur ekki betur heyrt á þingmanninum en að mögulegt væri að niðurstaða þeirrar vinnu yrði sú að kostir yrðu færðir á milli flokka. Ég vil spyrja hv. þingmann út í það, hvort það er rétt skilið hjá mér, eða hver skoðun hans sé á því. Ef svo er, spyr ég hvort hann sé sammála þeirri nálgun sem viðhöfð var á fyrri stigum rammaáætlunar í þinglegri meðferð að eingöngu væri hægt að færa kosti á milli flokka með því að færa þá niður í biðflokk til að veita sérfræðingum færi á að rannsaka betur eitthvað sem þingið teldi nauðsynlegt að rannsaka enn frekar.