146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[17:20]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki betur en að hér séu að verða nokkur tíðindi í þessu máli. Um er að ræða stjórnarmál, mál sem er lagt fram af hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, mál sem fær brautargengi þingflokka stjórnarflokkanna til þess að verða lagt fram hér í nafni ríkisstjórnarinnar, sem sett er saman af þessum þremur stjórnarflokkum. Ég sé ekki betur en að hv. þm. Teitur Björn Einarsson sé með fyrirvara við málið. Ég spyr hv. þingmann hvort svo sé og hvort það gildi um þingflokk Sjálfstæðisflokksins allan, að hann sé með efnislegan fyrirvara við tillögu hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra. Það setur jú allt þetta mál í algjörlega nýtt ljós.

Hv. þingmaður tekur nokkuð djúpt í árinni að því er varðar löggjöfina. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað hann telji að helst þyrfti að skoða varðandi löggjöfina sjálfa þegar hann segir að rífa þurfi hana upp með rótum, komi í ljós að þingið ráði ekki við málið, eins og hann orðar það. Hvaða helstu þætti sér hv. þingmaður að því er varðar mögulega annmarka á löggjöfinni?

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann út í þá staðreynd, ef hann treystir sér til að bregðast við þeirri vangaveltu minni, að hér samþykktum við rammaáætlun 2 á árinu 2013, en enn hafa engin þau svæði sem fóru í verndarflokk rammaáætlunar 2013 verið friðlýst fjórum árum síðar. Ég spyr hvað hann telji að sé þar helst til ráða, ef hann telur og er mér sammála um að verndarsjónarmið séu einhvers virði.