146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[17:22]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það þarf ansi frjálsa túlkun á orðum mínum til að draga þá ályktun að ég setji fyrirvara við málið, ansi frjálsa túlkun. Ég styð þetta mál. Ég styð hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra í því að leggja málið fram. Ég tel eins og hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sjálfsagt að það fái þinglega meðferð. Ég reikna með því að hv. þingmaður hljóti jafnframt að vera sammála því að málið fái þinglega meðferð.

Hvað varðar orð mín um að ef þinginu tekst ekki að taka svona mál og fjalla um það; skoðar alla þætti þess sem það telur að þurfi að skoða og kemst ekki að niðurstöðu, þá tók ég fram í ræðu minni að við værum í miklum vanda. Þetta er mikilvægt mál. Það er mjög mikilvægt að við fáum niðurstöðu í því hvernig við ætlum að halda hér áfram, hvernig við ætlum að haga náttúruvernd í þessu landi og hvernig við ætlum að haga orkuauðlindanýtingu.