146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[17:42]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Svandís Svavarsdóttir hafi eitthvað misskilið mig varðandi tilfærslu milli flokka. Ég er að vísa til þess að það kom skýrt fram í máli hæstv. ráðherra að nú væri það þingsins að vinna með þingsályktunartillöguna. Það kom líka skýrt fram í máli hæstv. ráðherra að það er ekkert óumbreytanlegt. Og komið hefur fram í máli stjórnarliða en líka í máli stjórnarandstöðunnar að menn sjái fyrir sér að möguleiki sé á tilfærslu ef sú leið yrði valin. En það hefur ekkert verið sagt um það og ég segi ekki að það sé það sem við ætlum okkur að gera eða sé fyrirhugað.

Varðandi flutningskerfið þá held ég að það sé eitt af því sem er mjög nauðsynlegt að við förum að sinna, að við förum að sjá það fyrir okkur í fullri alvöru hvernig við ætlum að veita þessari grænu orku sem við eigum og getum framleitt, til atvinnuuppbyggingar og til búsetu úti um landið. Það er alveg ljóst að við erum vel sett hér á höfuðborgarsvæðinu og á suðvesturhorninu, en norður í landi og austur um land eru fyrirtæki sem ekki geta þróað starfsemi sína og vantar jafnvel orku til að geta unnið það sem þeir eru að vinna nú þegar.