146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[17:44]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég bið hana að freista þess hér í annarri umferð að svara mér að því er varðar mögulegan fyrirvara úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins við málið. Þótt hv. þm. Teitur Björn Einarsson gengist ekki beinlínis við því í ræðustól Alþingis að hann gerði fyrirvara við málið mátti ráða það af orðum hans að hann styddi ekki endilega efnislega niðurstöðu málsins eða málið eins og það væri komið frá ráðherranum. Ég vil þess vegna spyrja hvernig þessu er háttað, til að fá það algjörlega skýrt fram hjá hv. þingmanni, sem er um leið formaður umhverfis- og samgöngunefndar. Það skiptir máli að því er varðar úrvinnslu málsins hér á Alþingi, fyrst í nefndinni og síðan hér fyrir þinginu.

Ég held að ég hafi skilið hv. þingmann rétt að því er varðar mögulegan flutning milli flokka. Ég skildi hana líka rétt, held ég, að því er varðar skilninginn á biðflokknum. Ég fagna því sem fram kom í máli hennar, að það væri algjörlega skýrt að biðflokkurinn væri sá vettvangur þar sem virkjunarkostir væru geymdir þegar gögn væru ekki fyrir hendi og að ekki væri verjandi að færa úr biðflokki yfir í nýtingu eða vernd þegar gögnin væru ekki fullnægjandi. Ég held að við höfum a.m.k. sameiginlegan skilning á því hvernig verkfærið er notað þó að ég hafi alltaf verið þeirrar skoðunar að við ættum að vera með miklu fleiri kosti í biðflokki þó svo að gögn lægju fyrir, einfaldlega vegna þess að ég tel að okkur liggi ekki svo mikið á.

Mig langar loks að spyrja hv. þingmann hvort hún telji koma til álita að beita meirihlutavaldi til að hreyfa kosti milli flokka eða hvort hún telji að það að hreyfa kosti milli flokka þurfi að lúta einhvers konar sjónarmiðum um samstöðu.