146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[17:46]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Bara svo því síðasta sé svarað hér þá kom það skýrt fram í máli ráðherra, og hefur líka komið skýrt fram í máli mínu, að það er mjög mikilvægt að við komumst að niðurstöðu sameiginlega og í sátt. Við erum ekki bara að tala um dægurmál. Við erum að tala um eitthvað sem horfir til framtíðar og við þurfum að hugsa lengra en til dagsins í dag. Þegar við horfum til loftslagsmála og verndunar á því sviði held ég að raforkan eða heitavatnsorkan okkar skipti gríðarlega miklu máli hjá okkur. Og við erum líka að tala um að sú orka er á tiltölulega hagstæðu verði fyrir almenning.

Fram kom í máli hæstv. iðnaðarráðherra á morgunverðarfundi Landsvirkjunar í morgun að meðalfjölskylda á Íslandi borgar 250.000 kr. á ári í raforkukostnað en t.d. Danir borga 730.000 kr. Hvað segir það okkur? Það segir okkur í fyrsta lagi að við erum í þeirri kjörstöðu að nýta græna orku og við erum líka í þeirri kjörstöðu að það er hagkvæmt fyrir heimilin. Ég held að við eigum að nota orkuna, en við þurfum hins vegar að komast að samkomulagi um það hvar og hvernig hún er framleidd.

Ég sagði hér í upphafi að ég gæti ekki borið ábyrgð á orðum einstakra þingmanna, hver svo sem sá þingmaður er. Ég biðst undan því að svara fyrir þau. Ég fagna því að málinu er líka beint inn í atvinnuveganefnd, (Forseti hringir.) og það hefur komið fram hjá bæði stjórnar- og stjórnarandstöðuþingmönnum. Ég tel að þetta skipti miklu (Forseti hringir.) máli bæði hvað varðar atvinnuuppbyggingu og hvernig við nýtum landið okkar til framtíðar.