146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[17:58]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Rammaáætlun er merkilegt og mikilvægt stjórntæki, sem hefur átt sér langa meðgöngu innan stjórnmálanna. Fyrstan tel ég hafa verið Hjörleif Guttormsson sem lagði fram tillögu um áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera á þingi árið áður en Ísland sendi Gleðibankann til Noregs. Síðan eru liðin nokkur ár og framlög Íslands til Eurovision hafa þróast á þeim tíma og það hefur hugmyndin um rammaáætlun líka. Nú stöndum við á þeim tímamótum að vera að ljúka í raun fyrsta fjögurra ára ferlinu í rammaáætlun, fyrsta heila fjögurra ára ferlinu. Áður en rammaáætlun kom til var allt landið í nýtingarflokki, nú hefur rammaáætlun náð að vega saman vernd og nýtingu og þó að verkið sé ekki fullklárað og þó að ferlið megi laga eins og önnur mannanna verk er þetta mikilvægt skref í rétta átt.

Það var komið inn á það fyrr í umræðunni að oft hefði verið tekist á um rammaáætlun á síðustu árum. Það má til sanns vegar færa. Ég held reyndar að ein af ástæðunum fyrir því að svo sé ekki núna kunni að vera sú að friðardúfan mikla, Jón Gunnarsson, sé orðinn hæstvirtur ráðherra í staðinn fyrir að vera háttvirtur þingmaður eins og hann var þegar hann stýrði atvinnuveganefnd á síðasta kjörtímabili og gerði sitt til að lengja mál og rífa sundur alla þá sátt sem hægt var að ná í sambandi við rammaáætlun. Það mætti svo sem nefna til fleiri minni og stærri spámenn á síðustu árum. Ég ætla að leyfa mér að nefna einn þeirra, þáverandi hæstv. ráðherra í tveimur stólum, Sigurð Inga Jóhannsson, sem um tíma gegndi hlutverki umhverfisráðherra, þó að það sé sennilega tímabil sem við reynum flest að gleyma sem mest við getum, enda var það eitt af hans fyrstu verkum sem umhverfisráðherra að taka í handbremsuna á friðlýsingu Þjórsárvera. Menn voru búnir að vera að pússa ballskóna og panta brauðtertur og voru undir það búnir að mæta upp í Þjórsárver og fagna friðlýsingu á grundvelli rammaáætlunar sem hafði verið samþykkt vorið 2013 þegar þau boð bárust úr ráðuneytinu að ráðherrann mundi ekki mæta og að friðlýsingin væri sett á ís. Þetta kölluðu t.d. Náttúruverndarsamtök Íslands pólitíska aðför að rammaáætlun. Það mætti svo sem alveg hafa sterkari orð um það.

Þrátt fyrir þetta voru faghópar 1 og 2 skipaðir í ráðherratíð Sigurðar Inga Jóhannssonar, þótt þeir hefðu ekki mikið að gera. Þeir voru skipaðir í apríl 2014 en fengu ekki einn einasta virkjunarkost inn á borð til sín fyrr en ári síðar. Eins og fram hefur komið fjallaði faghópur 1 um náttúru- og menningarminjar, faghópur 2 um auðlindanýtingu aðra en orkunýtingu og þau nýttu vel þennan dauða tíma sem verklausi ráðherrann gaf þeim og mótuðu sér verklagsreglur og undirbjuggu vinnuna sem góðu heilli hófst eftir að nýr ráðherra var sestur í stól umhverfisráðherra. Það var hæstv. þáverandi ráðherra Sigrún Magnúsdóttir. Hún tók við áramótin 2014/2015 og strax í mars árið 2015 lá fyrir hvaða virkjunarkostir myndu fara í faglega umfjöllun hjá faghópunum. Þá gátu hópar 1 og 2 tekið til óspilltra málanna. Eitthvað þurftum við að bíða eftir faghópi 3, hann var ekki skipaður fyrr en fjórum mánuðum eftir að virkjunarkostir lágu fyrir og faghópur 4 var ekki skipaður fyrr en heilum sjö mánuðum eftir að þetta verk var sett af stað af alvöru. Það er kannski ekki furða að sú vinna sem liggur eftir faghóp 3, sem skoðaði samfélagsleg áhrif, og faghóp 4, sem fjallaði um efnahagsleg áhrif, standist ekki samanburð við vinnu hinna faghópanna, enda höfðu þeir allt aðrar aðstæður. Ég velti því reyndar fyrir mér hvort ástæða þess að hæstv. félagsmálaráðherra sé á mælendaskrá á eftir sé tilraun ríkisstjórnarinnar til að bæta úr því að skort hafi upp á matið á samfélagslegum áhrifum virkjananna. Ég bíð spenntur að heyra hvað kemur út úr því.

Að lokinni vinnu faghópanna skiluðu þeir til verkefnisstjórnar í febrúar á síðasta ári. Þá tók við samkvæmt lögum umsagnarferli og í lok ágúst skilaði verkefnisstjórn tillögum til ráðherra. Þetta ferli sem í heildina á að taka fjögur ár, ferli þar sem þrjú ár eiga í raun að nýtast í vinnu faghópanna, var á síðasta kjörtímabili skorið niður í það að í stað þriggja ára höfðu verkefnisstjórn og faghópar eitt ár, eitthvað sem við megum alveg velta fyrir okkur hvort standist anda laganna eða hvort afurðin sé jafn vönduð og við viljum að hún sé fyrir vikið. En svo vildi til þegar ráðherra var kominn með tillögurnar í hendur að hann beið ekki boðanna, enda var farið að styttast í kosningar, þökk sé Wintris-máli annars hæstv. þáverandi ráðherra, nú í haust og ef maður skoðar tímalínuna sem verkefnisstjórn lagði til grundvallar vinnunni 2015–2017 var gert ráð fyrir að ráðherra fengi tillögurnar frá verkefnisstjórn á þessum tímapunkti, um mánaðamótin ágúst/september, en þá var líka gert ráð fyrir að ráðherra myndi nýta allan september, allan október og byrjunina á nóvember til að fara yfir tillögurnar, umræðu, umsagnir, öll vafaatriði og að á grundvelli þeirrar yfirlegu myndi ráðherra leggja tillögu fyrir þingið um miðjan nóvember.

Sigrún Magnúsdóttir beið hins vegar frá 26. ágúst þegar hún fékk tillögurnar frá verkefnisstjórn til 1. september með að leggja fram tillögurnar, þannig að maður spyr sig hvort ráðherra hafi tekið nægilegt tillit til þeirra ólíku sjónarmiða sem komu fram í umsögnum um málið, hvort hafi verið vandað nægjanlega til málsins eða hvort hugmyndin hafi verið að hespa málinu af fyrir kosningar svo að hægt væri að klára það sem fyrst.

Þetta væri í rauninni bara umræða um sagnfræði ef ekki væri fyrir þá staðreynd að sú tillaga sem liggur fyrir þinginu núna er nákvæmlega sú sama og sú hraðsoðna niðurstaða sem var lögð fram hér í september.

Þess vegna er kannski ekki nema von að við spyrjum okkur hvort núverandi hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hafi tekið sjálfstæða ákvörðun um rammaáætlun, hvort ráðherrann hafi nýtt sér tímann í ráðuneytinu frá því að hún kom þar inn til að leggjast yfir gögn málsins, til að lesa þær umsagnir sem komu inn á umsagnartímabilinu fyrir ári, hvort ráðherrann hafi ekki velt því fyrir sér jafnvel að taka upp nýtt umsagnarferli í ljósi þess að hún var að koma að málinu, nýr ráðherra, sérstaklega þegar við lesum það sem hefur verið nefnt um Þjórsárvirkjanir. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Óvissu um virkni seiðafleytna … verður ekki eytt á því stjórnsýslustigi sem verkefnisstjórnin starfar á.“

Þessi óvissa er eitthvað sem ráðherra getur tekið afstöðu til, getur ákveðið að færa virkjanirnar í biðflokk áður en ráðherrann kemur með tillöguna til þingsins, en hvorki Sigrún Magnúsdóttir, þáverandi, né Björt Ólafsdóttir, núverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, kusu að gera svo. Svo mætti nefna jarðvarmavirkjanirnar eins og þær leggja sig, ekki bara út af brennisteinsmenguninni sem hefur verið bent á alveg frá því að þingið samþykkti áætlun 2013 heldur líka vegna þeirrar þróunar sem er að verða í aflminnkun Hellisheiðarvirkjunar þar sem virkjun sem upphaflega átti að ganga fyrir 30 borholum þarf nú að sækja sér afl í allt að 15 nýjar borholur á næstu árum, bara til að viðhalda sér. (Forseti hringir.) Þetta eru alla vega spurningar sem ráðherra hefði mátt spyrja sig, myndi maður halda, hafa væntanlega komið fram í umsagnarferli og þá er spurning hvort hafi verið tekið nægjanlegt tillit til þeirra og fellur í hlut þingnefndarinnar að taka afstöðu til þess.